„Þær eru frábærar fyrirmyndir,“ segir hinn bandaríski Craig Harrington um íslensku Crossfit-stjörnurnar Katrínu Tönju Davíðsdóttur, Anníe Mist Þórisdóttur og Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur. Sex ára gömul dóttir Craig nefndi Barbie-dúkkurnar sínar í höfuðið á íslensku dætrunum skömmu eftir heimsleikana í ágúst.
„Sex ára gömul dóttir mín er búin að stunda krakka-Crossfit síðasta árið hér í Bandaríkjunum,“ segir Craig í samtali við Nútímann. „Hún horfir stöðugt á myndbönd á Youtube og myndirnar sem hafa verið gerðar um dæturnar þrjár.“
Kassamerkið #dóttir fór á flug í kjölfarið á velgengni íslenskra Crossfit-kvenna en þær hafa náð ótrúlegum árangri á heimsleikunum undanfarin ár. Þær röðuðu sér í þriðja, fjórða og fimmta sæti í ár en Anníe Mist vann heimsleikana tvö ár í röð, 2011 og 2012. Hún lenti í öðru sæti árin 2010 og 2014. Katrín Tanja vann tvo síðustu heimsleika eftir að hafa lent í 24. og 30. sæti árin áður. Ragnheiður Sara lenti í þriðja sæti tvö síðustu ár.
„Katrín Tanja er í sérstöku uppáhaldi hjá dóttur minni en hún kann vel að meta Anníe og Söru líka,“ segir Craig stoltur. „Þær veita henni innblástur og hún vitnar reglulega í Katrínu.“