Auglýsing

Sex þingmenn sem vilja breyta umræðuhefðinni í stjórnmálunum

Segjum það bara: Stemningin á Alþingi er búin að vera alveg glötuð undanfarið. En af hverju breytist ekkert? Af hverju er þetta alltaf eins?

Hér erum við með sex þingmenn sem vilja breyta umræðuhefðinni. Við hljótum að geta treyst á þau þegar Alþingi hefst á ný í haust.

 

1. Elín Hirst

Elín Hirst sagði í færslu á bloggsíðu sinni að umræðuhefðin á Alþingis verði að breytast hið snarasta.

„Þingmenn lofa öllu fögru í upphafi og lok hvers þings, en síðan verða efndirnar engar. Þar sem ég sit í sæti 53 í þingsalnum furða ég mig á því hvað þar fer fram,“ sagði hún.

„Alltof oft snúast umræðurnar um hver eigi heiðurinn að hverju og hver hafi klúðrað hverju. Niðrandi orð eru látin falla um persónur.  Engum er hrósað nema að hann sé í rétta liðinu.  Öllu er snúið á versta veg.“

Elín segist aldrei hafa kynnst slíku andrúmslofti á vinnustað á 30 ára starfsferli sínum.

2. Guðmundur Steingrímsson

gummi

Forseti Alþingis hefur lagt til að formenn flokkanna setjist niður og ræði breytingar á þingstörfum. Guðmundur Steingrímsson sagðist á Facebook-síðu sinni styðja það heilshugar.

„Og er mjög reiðubúinn til þess að fara í þá vinnu af krafti. Við í BF höfum lagt miklar áherslu á breytta stjórnmálamenningu og bætt vinnubrögð.“

Til að ná fram breytingunum vill Guðmundur að þingið verði sjálfstæðara og embætti forseta þess sterkara ásamt því að tól minnihlutans til að hafa áhrif á gang mála verði endurskoðuð.

Þá vill hann að þingið setji meiri kraft í að fræða og upplýsa almenning um hlutverk sitt og starfið sem fer þar fram með því að notast við samfélagsmiðla, að þingmál verði lögð fram í upphafi þings og að fyrirkomulag umræðna í þingsal verði endurskoðað.

3. Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Ragnheiður vill kanna hvort það sé skynsamlegt að konur stýri landinu.

Ragnheiður vill kanna hvort það sé skynsamlegt að konur stýri landinu.

Tillaga Ragnheiðar um kvennaþing vakti mikla athygli á dögunum. Hún sagði á viðtali á RÚV að hugmyndinni hafi verið varpað fram vegna þess að hún var svo þreytt og óánægð með verklagið á Alþingi.

Kvennaþing yrði tilraun til að breyta umræðuhefðinni en ekki vegna þess að hún sé orðin leið á strákunum.

4. Páll Valur Björnsson

Páll Valur vill betri stemningu á Alþingi. Mynd/Hörður Sveinsson

Páll Valur vill betri stemningu á Alþingi. Mynd/Hörður Sveinsson

Páll Valur Björnsson vill bæta ástandið á Alþingi og lagði til á dögunum að þingfundir myndu hefjast á hópsöng þingmanna. Þá myndu þingmenn íhuga í fimm mínútur í þögn. Hann sagðist geta lofað því að þessar nýstárlegu aðferðir myndu virka.

„Þá myndi kannski ástandið verða betra hérna og við gætum boðið fólki upp á gott þing,“ sagði hann.

„Það hefur verið reynt í skólum í Bandaríkjunum, íhugun í 15 mínútur í erfiðustu skólum Los Angeles, og það virkaði. Þeir eru með þeim bestu í dag.“

5. Hanna Birna Kristjánsdóttir

Hanna Birna var í viðtali í Íslandi í dag.

Hanna Birna var í viðtali í Íslandi í dag.

Hanna Birna sagði á Alþingi á dögunum að stjórnmálin verði að breytast.

Hún sagðist hafa talað fyrir breyttum stjórnmálum í mörg ár en gæti viðurkennt það að „vonir mínar og væntingar til þess að ná árangri í þeirri baráttu, þær hafa ekki aukist að undanförnu.“

Hún sagði að til þess að breyta menningunni á þinginu verði eitthvað að breytast í hugsunarhætti þingmanna. Það væri ekki við meirihluta eða minnihluta að sakast, heldur alla.

„Þess vegna stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, ágætu félagar, að þjóðin skilur ekki þingið,“ sagði hún.

6. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

sigmundur_6

Sigmundur sagði í viðtali á Sprengisandi í fyrra að stjórnmálin væru orðin fyrirsjáanleg og lítt spennandi. Hann sagði fáa þora að segja eitthvað sem vekur umræðu um grundvallaratriði.

„Það er svo þröngur rammi utan um hvað má segja. Þannig að þegar stjórnmálamenn mæta í spjallþætti, þá getur maður nánast gefið sér það fyrirfram – maður gæti skrifað handritið fyrirfram að því hvernig þátturinn verður. Menn eru að endurtaka sömu klisjurnar og sömu frasana, sömu spurningarnar og sömu svörin.

Það er voða lítið sem kemur á óvart og mjög fáir sem þora að segja eitthvað ögrandi eða eitthvað sem vekur umræðu um grundvallaratriði.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing