Eftir áratugi af misheppnuðum tilraunum fær Sideshow Bob loksins ósk sína uppfyllta.
Leikarinn Kelsey Grammer snýr aftur sem Sideshow Bob í hrekkjavökuþætti Simpsons-fjölskyldunnar í haust. Í þetta skipti kemur ekkert í veg fyrir að honum takist ætlunarverk sitt: Að drepa Bart Simpson.
Framleiðendur Simpsons-fjölskyldunar ljóstruðu þessu upp á ATX-hátíðinni í Austin í Texas á laugardag.
Al Jean, aðalframleiðandi þáttanna, útskýrði þetta þannig að hann hafði alltaf látið sig dreyma um að sléttuúlfurinn mynd ná hlauparanum í Looney Tunes-teiknimyndunum.
Það var því ákveðið að láta Bob ná Bart. Hann mun hins vegar eiga í mestu erfiðleikum með að finna eitthvað að gera eftir á, enda búinn að ná takmarki lífs síns.
Bart snýr svo að sjálfsögðu aftur í næsta þætti enda lúta hrekkjavökuþættirnir sínum eigin lögmálum.
Sideshow Bob var fyrst kynntur til sögunnar árið 1990 en hóf að reyna að drepa bart í þættinum Cape Feare árið 1993.