Auglýsing

Sigga Kling heitir loksins Sigga Kling: „Ég bjóst ekki alveg við að þetta yrði samþykkt“

Mannanafnanefnd hefur samþykkt millinafnið Kling. Þetta kemur fram á vefnum Úrskurðir.is. Það var að sjálfsögðu engin önnur en lífskúnstnerinn Sigga Kling sem lagði fram beiðni um að fá að taka nafnið upp samkvæmt lögum og reglum.

„Ég er ekki Klingenberg í raun, ég fékk náttúrulega nýjan pabba,“ segir Sigga í samtali við Nútímann. Hún fann blóðföður sinn fyrir fjórum árum og hefur síðan þá aðeins notast við eftirnafnið Kling, þó hún segist reyndar alltaf hafa verið kölluð Kling.

Nú hefur Kling verið fært á mannanafnaskrá og börnin hennar Siggu ætla að taka nafnið upp í næstu viku. Sigga segist vera rosalega ánægð með þetta og þakkar Jóni Gnarr fyrir að ryðja brautina.

Að fólk geti ekki heitið það sem það vill er dáldið spes. Þú mátt breyta oft ef þú ert hundur, þó þeir séu reyndar ekki með kennitölu. En ég er rosalega ánægð með þetta. Mér finnst að maður megi kenna sig við sjálfa sig.

Sigga segist vera ánægð með að mannanafnanefnd hafi verið opin fyrir nafninu. „Ég bjóst ekki alveg við að þetta yrði samþykkt en ég er rosalega ánægð með þetta þar sem þetta er orðið nýtt nafn,“ segir hún.

Kling-fjölskyldan ætlar svo að halda athöfn í næstu viku þar sem börnin hennar Siggu ætla að taka upp nafnið. Sigga á þrjú börn þannig að það styttist í að þau sem bera nafnið verði fjögur en ekki bara Sigga sjálf.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing