Ríkislögreglustjóri ákvað að óska eftir frekari upplýsinga vegna meints innbrots í tölvu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, eftir að í tilefni upplýsinga sem komu fram í fjölmiðlum.
Þetta kemur fram í bréfi sem Sigmundur Davíð birtir á Facebook-síðu sinni en undir það skrifa Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri og Páll Heiðar Halldórsson.
Eftir að upplýsingar bárust frá rekstrarfélagi Stjórnarráðsins og lagt hafði verið á þær mat var það niðurstaða ríkislögreglustjóra, að höfðu samráði við ríkissaksóknara, að hætta rannsókn málsins.
Ríkislögreglustjóri beinir þeim tilmælum til forsætisráðuneytisins að tölva Sigmundar Davíðs verði innkölluð og að öllum gögnum á innra drifi hennar verði eytt með tryggum hætti. Jafnframt verði gengið úr skugga um að tryggt sé að upplýsingar er varða öryggis ríkisins hafi ekki komist í hendur óviðkomandi aðila og að ekki sé hætta á slíku.
Þá fer ríkislögreglustjóri þess á leit við forsætisráðuneytið og rekstrarfélag Stjórnarráðsins að „hér eftir verði tafarlaust tilkynnt um slík innbrot og tilraunir til þeirra til greiningardeildar ríkislögreglustjóra,“ segir einnig í bréfinu.
Ásamt bréfinu birtir Sigmundur Davíð færslu þar sem hann segist hafa fengið gögn um málið frá ríkislögreglustjóra
„Fram kemur að tölvupóstur sem sendur var á mig og látinn líta út fyrir að hann hefði komið frá öðrum en þeim sem sendi hann hefði líklega innihaldið þekkta tölvuveiru að nafni „Poison Ivy backdoor“.
Um þá veiru segir í bréfi frá RFS: „Einkenni hennar eru þær að hún opnar bakdyr inn á tölvu viðkomandi fyrir aðgengi árásaraðila að tölvunni“.
Þótt veiran hafi ekki fundist í tölvunni er tekið fram að „Algengt er með slíka veirur að árásaraðilinn hreinsar til eftir sjálfan sig að lokinni aðgerð,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook.