Auglýsing

Sigmundur Davíð heldur áfram að mæta illa í vinnuna, mætti ekki á fyrsta þingfund Alþingis

Alþingi var sett í gær, fimm vikum eftir kosningar. Þingmenn komu saman við hátíðlega athöfn og síðdegis hófst fyrsti fundurinn á þessu kjörtímabili. Þar var fjárlagafrumvarpi næsta árs úthlutað, nýr þingforseti var kosinn og því næst var dregið í sæti.

Steingrímur J. Sigfússon, aldursforseti og forseti þingsins, flutti kveðju frá Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur glímt við veikindi að undanförnu og tekur Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður flokksins, sæti á Alþingi í fjarveru hennar.

Tveir aðrir þingmenn voru fjarverandi á fyrsta fundinum, þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þau eru bæði þingmenn Framsóknarflokksins og gegnir Lilja Dögg enn embætti utanríkisráðherra þar sem ekki er búið að mynda nýja ríkisstjórn.

Þær upplýsingar fengust hjá Alþingi að Lilja Dögg hefði verið viðstödd þingsetningarathöfnina en þurft frá að hverfa þar sem hún var á leið til útlanda. Hjá utanríkisráðuneytinu fengust þær upplýsingar að hún hefði ekki getað sótt fyrsta þingfundinn vegna ferðar sinnar til Brussel þar sem hún sækir fund utanríkisráðherra Nato ríkjanna.

Engar skýringar voru á fjarveru Sigmundar Davíðs en hann var ekki með skráðar fjarvistir.

Sigmundur Davíð hefur ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi frá 8. júní síðastliðnum. Það var jafnframt í síðasta skipti þessu ári sem hann kvaddi sér hljóðs í ræðustól þingsins en þá var þingsályktunartillaga um vantraust á ríkistjórnina, þingrof og nýjar kosningar rædd.

Á síðasta kjörtímabili, eða frá 2013 til 2016, var Sigmundur með 56,7% mætingu.

Ekki náðist í Sigmund Davíð við vinnslu fréttarinnar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing