Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spyr í fyrirspurn til forseta Alþingis hver hafi gefið leyfi fyrir því að „hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni og gengi þaðan á sama hátt og forseti Íslands og þingmenn gera við þingsetningu?“ og hvort leyfið sé til marks um frekari tilslakana á reglum um klæðaburð Alþingismanna.
Þar vísar hann til gjörnings sem fór fram á Austurvelli í tilefni af ljósmyndasýningunni Demoncrazy á Listahátíð Reykjavíkur, þar sem berbrjósta konur gengu úr Alþingishúsinu og út á Austurvöll.
Demoncrazy sýnir ungar berbrjósta konur standa við málverk, ljósmyndir og styttur af karlmönnum í opinberum rýmum og ögra jakkafataklæddri, miðaldra og karlkyns ímynd valdsins sem þær hafa alist upp við.
Fyrirspurn Sigmundar er í fimm liðum en hann vill í fyrsta lagi vita hver hafi veitt leyfi fyrir því að hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni og gengi þaðan á sama hátt og forseti Íslands og þingmenn við þingsetningu.
Í öðru lagi vill hann vita hvort forseta Alþingis finnist slík notkun á þinghúsinu og þinghefðum auka virðingu Alþingis og í þriðja lagi hvort leyfið fyrir gjörningnum hafi verið tengt stuðningi forseta Alþingis við málstað þeirra sem hlutu leyfið.
Í fjórða lagi vill hann vita hvort aðrir hópar megi vænta þess að fá leyfi fyrir sams konar viðburðum, óháð því hvort forseti Alþingis sé fylgjandi málstað þeirra eða ekki. Hann endar síðan fyrirspurn sína á að spyrja hvort leyfið sé til marks um frekari tilslakanir á reglum um klæðaburð Alþingismanna.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, vakti athygli á fyrirspurninni á Twitter og sagði Indriða mættan
Indriði er mættur á vaktina. Kvartar undan hálfnöktu fólki og banki í ofnunum. https://t.co/pDdKBhDnyu pic.twitter.com/ZsEJF0zGsj
— Andrés Ingi (@andresingi) June 11, 2018
Nokkur umræða skapaðist um fyrirspurnina í þræðinum hjá Andrési en hann sagðist sjálfur hugsi yfir orðanotkun Sigmundar en er jafnframt mjög spenntur að sjá svarið.
Annars er ég hugsi yfir þessu „í auglýsingaskyni“ hjá Sigmundi. Þykir honum þá eðlilegt og sjálfsagt mál að hálfnakið fólk nýti Alþingishúsið í einhverju öðru skyni?
— Andrés Ingi (@andresingi) June 11, 2018
Nanna Hermannsdóttir tók þátt í gjörningnum og sat fyrir á ljósmyndum sýningarinnar. Hún sagðist ætla að minnast á þetta í jómfrúarræðu sinni á Alþingi.
Í jómfrúarræðu minni á Alþingi mun ég minnast á það þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði um brjóstin mín í fyrirspurn til forseta Alþingis.
— Nanna Hermannsdóttir (@nannahermanns) June 11, 2018