Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum í lok október. Hann hlaut afgerandi kosningu á tvöföldu kjördæmisþingi flokksins sem nú stendur yfir. mbl.is greinir frá.
Sjá einnig: Örskýring: Ha? Af hverju er helgin svona mikilvæg fyrir Sigmund Davíð?
Sigmundur hlaut 170 atkvæði í efsta sæti listans, en alls greiddu 238 atkvæði. Auðir og ógildir seðlar voru þrír.
Í öðru sæti er Þórunn Egilsdóttir.
Höskuldur Þórhallsson, sem sóttist eftir efsta sæti listans líkt og Sigmundur, hlaut 10,21% greiddra atkvæða. Hann ætlar ekki að sækjast eftir sæti á lista flokksins. Það mun Líneik Anna Sæmundsdóttir heldur ekki gera. Hún sóttist einnig eftir efsta sætinu en hlaut aðeins tvö atkvæði í kosningunni.
Þá dró Hjálmar Bogi Hafliðason framboð sitt í annað sæti til baka og er Þórunn Egilsdóttir því sjálfkjörin i annað sæti listans.
Þau Hjálmar Bogi, Líneik Anna og Sigfús Karlsson eru því í kjöri um 3. sæti listans og hefst kosning um sætið innan skamms.