Auglýsing

Sigmundur Davíð varar við ógnaröld á Íslandi: „Þetta stefnir í að ég þurfi að kaupa skothelt vesti handa dóttur minni í fermingargjöf“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, talaði tæpitungulaust og átti mjög beinskeytt samtal við Götustrákana á hlaðvarpsveitunni Brotkast en þingmaðurinn er nýjasti gestur þeirra félaga. Á meðal þess sem bar á góma voru mál hælisleitenda á Íslandi en Sigmundur Davíð segir stefna í sömu ógnaröld á Íslandi og ríkir nú í Svíþjóð ef ekki verður gripið í taumana.

„Það er verið að skjóta fólk í tugatali í Svíþjóð núna. Landi þar sem menn voru áður að dansa með blóm í hárinu…“

„Við erum bara að stefna hraðbyri þangað. Ástandið í Svíþjóð er bara orðið skelfilegt. Það urðu fleiri sprengjuárásir í Svíþjóð í fyrra heldur en í nokkru öðru landi þar sem ekki er stríð. 150 sprengjuárásir í Svíþjóð,“ sagði Sigmundur Davíð og við nánari skoðun var fyrrum forsætisráðherrann ekkert svo langt frá því.

Samkvæmt opinberum tölum í Svíþjóð voru 149 sprengjuárásir skráðar en 90 talsins árið 2022. Þá voru 363 skotárásir skráðar í Svíþjóð sem leiddu til þess að 53 einstaklingar létu lífið þar í landi. Eitthvað sem Sigmundur Davíð bendir á í þættinum og komið er að hér síðar í fréttinni. Þá fjallaði Sky News ítarlega um ástandið í Svíþjóð fyrir viku síðan en hægt er að sjá umfjöllunina hér fyrir neðan.

 

Íslendingar minnihlutahópur á Íslandi

„Það er verið að skjóta fólk í tugatali í Svíþjóð núna. Landi þar sem menn voru áður að dansa með blóm í hárinu, unnu í Volvo-verksmiðjunni og IKEA og áttu sína íbúð. Núna er bara ógnaröld því miður orðin í Svíþjóð og það er út af þessu stjórnleysi. Stjórnleysið er ríkjandi á Íslandi líka núna og þetta er að gerast alveg ótrúlega hratt,“ sagði Sigmundur Davíð sem vildi meina að Íslendingar gætu orðið að minnihluta á Íslandi ef áfram heldur sem horfir.

„Ef þróunin heldur áfram eins og hún var á árstímabili frá 22 til 23, þar sem það fjölgaði um 15,4 útlendinga fyrir hvern einn Íslending sem bættist við þá verða Íslendingar á Íslandi komnir í minnihluta eftir fimmtán ár. Þetta gerist svo hratt í svona litlu landi þegar maður missir stjórn á þessu. Þá er aldrei aftur snúið. Þá er þetta búið spil hvað varðar íslenska þjóð.“

Vísa eigi glæpamönnum úr landi

Bjarki sagðist finna til með fjölskyldum sem hann sér reglulega bregða fyrir í sjónvarpsfréttum. Fólk sem væri til dæmis með tvö lítil börn. Sama sagði hann þó ekki eiga við um útlendinga sem hingað koma til lands og brjóta af sér. Hann vill að þeim sé vísað úr landi og skilur ekki hvers vegna lögunum sé ekki breytt svo það sé hægt.

„Þetta stefnir í það að ég þurfi að kaupa skothelt vesti handa dóttur minni í fermingargjöf,“ sagði Bjarki sem á síðasta ári eignaðist sitt fyrsta barn.

„Auðvitað munum við taka á móti flóttafólki, fólki sem er raunverulega í neyð en til þess að geta gert það þá verðum við að geta valið fólkið sjálf. Það er orðin stefnan í Danmörku eins og forsætisráðherrann þar sagði: „Stefna hjá okkur núna er að engin mæti til Danmerkur að sækja um hæli. Við munum áfram taka við flóttamönnum en þeir munu sækja um annarsstaðar að komast til Danmerkur og við veljum fólkið sem þarf mest á hjálpinni að halda.“ Hérna er þessu öfugt farið,“ sagði Sigmundur Davíð þá og skaut föstum skotum á Ríkisútvarpið.

Sannleikurinn oft annar en á RÚV

„Það er alltaf verið að afgreiða þetta í fjölmiðlunum eins og þú komst inn á. Það er eins og Ríkisútvarpið sé æðsta úrskurðarnefnd um hver eigi að fá að vera á Íslandi. Þá er farið og tekið viðtal við einhverja fjölskyldu sem situr í sófa og eru mjög leið yfir því að fá ekki hæli eða landvist. Útlendingastofnun getur engu svarað því hún má ekki tjá sig um einstaka mál þannig að það er algjörlega hægt að búa til söguna.“

Sigmundur Davíð segir þó almenning ekki alltaf fá rétta mynd af málunum. Það sé auðvelt að sitja í sófa og þyjast miður sín en þegar sannleikurinn kemur í ljós „innan kerfisins“ þá megi ekki segja frá honum.

„Það hafa verið gerðar svona sögur og birtar í fréttum þar sem í ljós hefur komið að þar hafi jafnvel verið um mjög vafasama aðila að ræða. Ég er ekki að segja að það sé alltaf, auðvitað. Ég þarf vonandi ekki að taka það fram. Það hefur gerst. Það getur hver sem er setið í sófa og sagst vera miður sín yfir því hvað íslenska ríkið sé vont að veita ekki hæli. Svo kemur sannleikurinn í ljós innan kerfisins en það má ekki segja frá honum,“ segir Sigmundur Davíð og tekur þar dæmi.

ISIS á Akureyri og líflátshótanir

„Ég heyri í þessu starfi sem ég er í fleiri sögur en þær sem birtast í fjölmiðlum um hvernig þessi mál oft þróast. Til dæmis sögur af manni sem fór í grunnskóla og hótaði kennara barna sinna lífláti því það væri verið að kenna þeim eitthvað sem væri ekki honum að skapi. Það sáu allir í fréttum reyndar að það var virkur ISIS-maður handtekinn á Akureyri. Þannig að það er eitthvað mikið að í þessu kerfi og hvernig er haldið utan um þessi mál og menn misnota kerfið.“

Nútíminn birtir hér fyrir neðan brot úr viðtalinu sem Götustrákar tóku við Sigmund Davíð en ef þú vilt horfa og hlusta á það í heild sinni þá getur þú það með áskrift að hlaðvarpsveitunni Brotkast.

Hvað eða hverjir eru Götustrákar?

Vinirnir Aron Mímir Gylfason og Bjarki Viðarsson eru mennirnir sem standa á bakvið hinn umdeilda hlaðvarpsþátt Götustrákar sem hægt er að nálgast á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Aron og Bjarki voru báðir virkir þátttakendur í undirheimum Reykjavíkur þangað til þeir ákváðu að snúa lífi sínu við og eru nú á beinu brautinni, báðir edrú og aðstoða nú aðra við að hætta að nota fíkniefni með aðstoð 12 spora samtaka hér á Íslandi.

„Við viljum með þættinum okkar veita „venjulegu fólki“ innsýn inn í þennan ljóta og miskunnarlausa heim og þá viljum við líka geta aðstoðað fólk, og þá sérstaklega foreldra, hvernig hægt er að koma auga á neyslu barna þeirra, koma í veg fyrir hana eða aðstoða þau. Hægt er að hafa samband við okkur með því að senda tölvupóst á gotustrakar@brotkast.is

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing