Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beinir orðum sínum til Kára Stefánssonar í grein í Fréttablaðinu í dag, þrátt fyrir að nefna hann ekki á nafn. Tilefnið er grein Kára í gær þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld og hótaði að safna 100 þúsund undirskriftum gegn ríkisstjórnarflokkunum ef framlög til heilbrigðismála yrðu ekki aukin.
Sigmundur hefur greinina á því að lýsa manni sem hann kallar „toppara“ og gefur í skyn að Kári sé slíkur maður. „Það sem topparar þrá umfram allt annað er athygli og því er ég eflaust að veita jákvæða styrkingu með því að svara slíkum manni,“ segir hann.
Hann mun sjálfsagt líta á það sem tækifæri til að útskýra að nú hafi sannast enn betur en áður hversu illa gefnir og illviljaðir stjórnmálamenn séu. Það er samt ekki hægt að láta það óátalið þegar maður sem talinn er gáfaður á sumum sviðum heldur fram hreinum ósannindum og nýtir um leið veikindi fólks til sjálfsupphafningar.
Sigmundur segir að ágæt samstaða ríki um það bæði meðal almennings og stjórnmálamanna að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins.
„Það hefur núverandi ríkisstjórn gert í meira mæli en fyrri ríkisstjórnir. Það sem af er kjörtímabilinu, sem er rúmlega hálfnað, hafa framlög til Landspítalans verið aukin um 30% (það er miðað við fjárlagafrumvarp og verður sjálfsagt enn meira samkvæmt rekstrarreikningi),“ segir hann.
„Framlög til spítalans hafa aldrei verið meiri og það sama á við um heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið í heild. Geti sérfræðingurinn toppað það með því að benda á annað vestrænt ríki sem hefur aukið jafnmikið við framlög til heilbrigðismála á sama tímabili (eða nokkru öðru tímabili í seinni tíð) hvet ég hann til að benda á slík dæmi.“
Sigmundur segir bæði rangt og óheiðarlegt að saka þau stjórnvöld sem hafa forgangsraðað mest í þágu heilbrigðismála um að vera viljandi að svelta heilbrigðiskerfið.
„En slík framganga er líka skaðleg því að við þurfum þrátt fyrir allt að ná enn betri árangri á sviði heilbrigðismála og við þurfum að vera í aðstöðu til að setja enn meira, og miklu meira, fjármagn í málaflokkinn á komandi árum og áratugum,“ segir hann.
„Stjórnvöld verða því að geta reitt sig á ráðgjöf þeirra sem best þekkja til um hvernig hægt sé að leysa úr þeim vanda sem er brýnastur og fjárfesta á sem árangursríkastan hátt í heilsu og lífsgæðum fólks. Galgopaháttur í bland við rangfærslur hjálpar ekki til við það og enn síður lausnir byggðar á ósannindum.“