Auglýsing

Sigríður María lét óábyrga þingmenn heyra það í jómfrúrræðu sinni á Alþingi, sjáðu myndbandið

Sigríður María Egilsdóttir, varaþingkona Viðreisnar, sagði ræðu á Alþingi í dag að þingmenn verði að taka öðruvísi á málunum, ætli þeir að endurreisa traust fólks á Alþingi. Horfðu á ræðuna hér fyrir ofan.

Sigríður María flutti jómfrúrræðu sína á Alþingi í dag en hún er varamaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Hún sagði í ræðu sinni að traust fólks til stjórnmálamanna væri í sögulegu lágmarki. „Í nágrannalöndum okkar segja ráðherrar af sér af því að þeir fóru með ráðuneytissíma til útlanda án þess að tilkynna það eða þeir höfðu ekki greitt útvarpsgjaldið þarlendis,“ sagði hún.

„Hér á landi virðast hins vegar þjóðkjörnir fulltrúar geta keyrt því sem nemur 36 sinnum hringinn í kringum landið á kostnað skattgreiðenda, haldið þjóðhátíðarfundi sem fara 100% fram úr kostnaðaráætlun, orðið uppvísir að því að brjóta lög við skipun dómara án þess að svo mikið sem biðjast afsökunar.“

Sigríður var þar að vísa í að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk 385 þúsund krónur á mánuði í fyrra í aksturspeninga, að þingfundur á þingvöllum á dögunum hafi kostað tæplega 90 milljónir en ekki 45 milljónir eins og gert var ráð fyrir og að Sigríður Andersen hafi brotið lög við skipun dómara við Landsrétt, án afleiðinga.

Hún bætti þó við að hún væri ekki að búast við hópuppsögnum að ræðu sinni lokinni og að það hafi ekki heldur verið ætlunin með henni. „Það sem ég kalla hins vegar eftir er að við tökum ábyrgð á embættisgjörðum okkar,“ sagði hún.

„Sú ábyrgð getur tekið sér mörg form, hvort sem það er með afsögn eða með því að játa mistök og sýna iðrun. Hugtakið ábyrgð virðist hins vegar hafa tekið sér alveg séríslenskt form. Hér hefur myndast sú hefð að snúa einfaldlega baki í blásandi vindinn og bíða síðan þegjandi þar til vindinn lægir. En almenningur vill sjá kjörna fulltrúa þurfa að sæta sömu ábyrgð og hann þarf sjálfur að gera í eigin störfum og endurnýjað umboð er ekki hvítþvottur. Það sýnir dvínandi traust á Alþingi, löggjafanum sjálfum sem setur hér leikreglurnar, dvínandi traust sem leiðir að lokum til þess að fólk missir traust á sjálfum reglunum sem við reynum að setja hér.“

Að lokum sagði hún að þingmenn verði að taka öðruvísi á málunum ætli þeir að endurreisa traust fólks á Alþingi og framkvæmdarvaldinu. „Það er einungis þegar við sjálf förum að sýna starfi okkar og stöðu tilhlýðilega virðingu sem við getum farið að kalla eftir trausti.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing