Leikur Íslands gegn Englendingum í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi í sumar virðist ekki hafa haft áhrif á ástarlíf Íslendinga þegar kemur að fjölda fæðinga níu mánuðum eftir leikinn ótrúlega. Fjöldi fæðinga var í meðaltali á Landsspítalnum og í lægri kanntinum á Sjúkrahúsi Akureyrar um helgina.
Vísir greindi frá því í gær að met hafi verið slegið í mænudeyfingum á Landspítalanum um helgina. Ásgeir Pétur, læknir á Landsspítalanum, birti færslu á Twitter þar sem hann greindi frá metinu og að það hefði verið slegið akkúrat níu mánuðum eftir leikinn.
hehehe dagsins:
sett var met í fjölda mænudeyfinga á fæðingarvakt um helgina – níu mánuðum eftir 2-1 sigurinn á Englandi
😉
— Ásgeir Pétur (@asgeirpetur) March 27, 2017
Í samtali Nútímans við Önnu Sigríði Vernharðsdóttur, yfirljósmóður fæðingarvakt á Landspítala, segir hún að að meðaltali fæðist átta til níu börn á dag.
„Í gær, mánudegi, voru átta fæðingar, á sunnudaginn voru þær þrettán, laugardaginn fjórar og á föstudaginn voru þær tíu. Miðað við síðustu fjóra daga er þetta því bara eins er venjulega hjá okkur, þó svo að á föstudag og sunnudag hafi auðvitað verið fleiri fæðingar en venjulega,“ segir Anna Sigríður.
Anna Sigríður segir ástæðuna fyrir þessum metfjölda í mænurótardeyfingum líklega koma til vegna fjölda þeirra sem fæddust á sunnudeginum og jafnvel tilviljana.
Ingibjörg Hanna Jónsdóttir, forstöðuljósmóðir á Sjúkrahúsi Akureyrar, segir í samtali við Nútímann að óvenju lítið hafi verið að gera á fæðingardeildinni um helgina og því ekki hægt að sjá tengingu við landsleikinn. „Það er samt alltaf gaman að skoða þetta og leita að einhverjum tengingum,“ segir hún hress.