Sigurður Ásgeir Árnason Olsen lýsir eftir manni sem kom honum óvænt til bjargar í gær. Sigurður var á gangi á leiðinni frá Borgartúni í Hörpu og það rigndi svo mikið að hann þurfti að nota pizzukassa sem regnhlíf. Skyndilega birtist ókunnugur maður á grænum bíl sem bauð Sigurði far.
Nú vill Sigurður finna manninn og endurgjalda honum greiðann.
„Ég er á röltinu í handónýtu veðri, rigning, með pizzukassa sem ég nota sem regnhlíf,“ segir Sigurður í bréfi til ókunnuga bílstjórans á Facebook-síðu sinni.
Upp úr engu sé ég bíl bruna upp á kantinn, á fleygiferð til mín og snögghemlar á grasinu við hliðina á göngustíg. Náunginn opnar dyrnar og segir mér að koma inn í bílinn sem ég þigg þar sem fötin mín eru blaut og ég á hraðferð.
Sigurður segir að það sem gerðist næstu þrjár mínúturnar hafi verið ótrúlegt. „Ég kom varla upp orði þar sem þú varst svo ógeðslega fokkinn hálplegur og góður þar sem þú skutlaðir mér á áfangastað og sagðist vera að fara í jógatíma.“
Hann spyr hversu „fokkinn geðveikt“ það er.
„Vissir þú ekki að þú hefðir getað farið illa með bílinn þinn með því að keyra svona harkalega upp á kantinn? Bara til að hjálpa mér? Ég þekki þig ekki, ég er ókunnugur þér en þú fórst langt út fyrir þægindarammann til að hjálpa mér,“ segir Sigurður. „Þú þurftir bókstaflega að spotta mig og taka ákvörðun á sekúndu.“
Sigurður vonast til að finna hjálpasama manninn á græna bílnum til að endurgjalda honum greiðann. Sigurður vill bjóða honum út að borða en hann vill helst bjóða honum heim til sín og elda fyrir hann.
„Ég ætla að svíkja minn eigin karakter til að finna þig, biðja fólk um að deila þessu, fá mér jafnvel snjallsíma til að ná sambandi við þig,“ segir Sigurður.
„Instagram? Snapchat? Skal redda því. Whatsapp eða einhver djöfullinn sem ég myndi annars aldrei á ævi minni nota, ég skal redda því til að þjóna þínum samskiptaþörfum.
Ég ætla að setja auglýsingu í blaðið og hringja persónulega í fólk til þess að ná til þín því ég mun finna þig andskotinn hafi það, og ég mun endurgjalda þér greiðann.“
Sigurður segist vilja gera það sem er réttast í stöðunni, sem er að láta hjálplega manninn átta sig á því að það sem hann gerði myndu 99,9% fólks aldrei gera. „Því ég elska þig, ég fuckin elska þig,“ segir hann.