Lagið Our Choice í flutningi Ara Ólafssonar, sem sigraði Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn, var flutt af öðrum keppanda, Aroni Hannesi þegar laginu var skilað inn í keppnina. Höfundurinn Þórunn Erna Clausen segir að lagið hafi upphaflega ekki hafa verið samið fyrir keppnina.
Aron Hannes var nemandi hjá Þórunni í söngskólanum Vocal Art, önnina áður en lagið var samið. „Ég var ekki með Söngvakeppnina í huga þegar lagið varð til. Aron hafði verið hjá mér í söngskólanum og ég fékk hann til að syngja lagið fyrir mig,“ segir Þórunn í samtali við Nútímann.
Þegar fresturinn til að skila inn framlögum í Söngvakeppnina var að renna út ákvað Þórunn að skila inn laginu. „Ég ætlaði ekkert að vera með en ákvað svo að senda lagið inn á síðustu stundu,“ segir hún.
Þá var Aron Hannes, sem er frábær söngvari, kominn í annað lag og ég þurfti að finna söngvara.
Þórunn kynntist Ara árið 2011 þegar hún var aðstoðarleikstjóri við uppsetningu á leikritinu Galdrakarlinn í Oz þar sem Ari fór með hlutverk aðeins 13 ára gamall. Það var svo á afmælistónleikum Bergþórs Pálssonar í október á síðasta ári sem Þórunn sá Ara syngja aftur og sá strax að þarna væri rétti maðurinn fyrir lagið. „Ég heillaðist algjörlega af honum og vissi að þarna væri rétti aðilinn fyrir lagið,“ segir hún.
Eftir að hún hafði sannfært Ara um að syngja lagið í keppninni tók það að sögn Þórunnar töluverðum breytingum. „Lagið breyttist fullt eftir að við fengum Ara inn í þetta og varð algjörlega lagið hans Ara,“ segir Þórunn.
Eurovision fer fram í Lissabon í Portúgal dagana 8., 9. og 12. maí. Ísland hefur ekki komist áfram í lokakeppnina síðustu þrjú skipti. Þórunn er að sjálfsögðu bjartsýn á að lagið þeirra fari í úrslitin. „Auðvitað erum við bjartsýn á að fara áfram. Við ætlum a.m.k. að gera okkar allra besta,“ segir Þórunn að lokum.