Í dag fer fram lokaatkvæðagreiðsla um stjórnarfrumvarp Svandísar Svavrsdóttir heilbrigðisráðherra um þungunarrof. Inga Sæland hefur opinberlega mælt gegn ákvæði sem snýr að því að heimila þungunarrof fram á 22. viku meðgöngu. Sigurlaug Benediktsdóttir sem hefur unnið sem fæðingalæknir síðastliðin 15 ár, á Íslandi og í Svíþjóð, skrifaði opið bréf til Ingu sem birtist á Vísi.
Sjá einnig: Tekin ákvörðun um frumvarp Svandísar Svavarsdóttir um þungunarrof í dag
Sigurlaug segir að hún reyni ávallt að mæta öllum sínum skjólstæðingum af fagmennsku og samkennd. Þungun og fæðing sé flókið ferli og því fylgir fullt af ólíkum vandamálum. Tilgangurinn með bréfinu er að vekja athygli Ingu á litlum hópi kvenna, sem á sér engan málsvara í ofannefndri frumvarpsumræðu.
Þetta eru konur sem leita á kvennadeildina eftir 16. viku þungunar og óska eftir fóstureyðigu af félagslegum ástæðum. Hún tekur dæmi um hversu skelfilegar aðstæðurnar geti í raun verið.
1) 30 ára gömul kona, tveggja barna móðir, með langa sögu um óreglu – áfengis- og fíkniefnaneyslu. Hún á 6 og 8 ára gamla syni sem hún hefur misst forræðið yfir fyrir nokkrum árum, vegna vanrækslu. Hún hefur verið í blandaðri neyslu alla meðgönguna og býr hjá vinum (heimilislaus). Hún hefur ekki hugmynd um hvenær hún var með síðustu blæðingar en gerði þungunarpróf í gær og komst að því að hún væri ólétt.
Hún leitar til félagsráðgjafa deildarinnar til að sækja um fóstureyðingu og við sónarskoðun kemur í ljós að hún er gengin 18 vikur. Ég þarf að staðfesta lengd þungunar og segja þessarri konu að hún geti því miður ekki rofið þessa þungun heldur verði að ganga með þetta barn. Hver er framtíð þessa barns? Hver á að sjá um þessa heimilislausu konu á meðgöngunni sem hefur engin plön/vilja til að hætta fíkniefnaneyslu. Við hvaða aðstæður hefur þetta fóstur þroskast fyrstu og viðkvæmustu vikurnar? Ef kona hefur misst frá sér 2 börn áður, hversu erfitt er ekki að missa enn eitt barnið frá sér, því það eru litlar líkur á því að hún haldi þessu barni eftir fæðinguna.
2) 13 ára gömul stúlka kemur í fylgd með 29 ára gamalli móður sinni sem er einstæð með 3 börn og vinnur sem kennari (nýkomin í fasta vinnu). Móðirin hafði tekið eftir breyttu vaxtarlagi hjá stúlkunni og þráfaldlega spurt hana hvort hún sé farin að sofa hjá, en stelpan neitar. Mamman krafðist þess að stelpan gerði þungunarpróf í gær sem var jákvætt.
Stúlkan kemur til skoðunar á kvennadeild og reynist vera gengin 17 vikur. Stelpan er í grunnskóla. Mamman fær ekkert fæðingarorlof. Mamman getur ekki tekið langt frí frá vinnu sem hún var að byrja í. Mamman rétt nær endum saman með sín 3 börn og hefur ekkert aflögu. Ég þarf að sitja og horfa í augun á þessum mæðgum og segja: NEI, þú skalt ganga með þetta barn! Þið hljótið að finna útúr þessu!
3) 28 ára gömul erlend kona kemur til félagsráðgjafans á kvennadeild og óskar eftir fóstureyðingu. Hún hefur búið með ofbeldismanni sl. 3 ár. Hann hefur beitt hana grófu ofbeldi, andlegu, kynferðislegu og líkamlegu. Hún er öll marin og blá á útlimum og kropp. Hún hefur ekki haft sig í að koma til að óska eftir fóstureyðingu fyrr en nú, slík er kúgunin. Hún á enga að á Íslandi, hefur búið mjög félagslega einangruð hér á landi. Hann má alls ekki vita af þunguninni og að hún sé stödd hjá okkur. Ef hún eignast þetta barn mun hún tengjast þessum ofbeldismanni um alla tíð, sennilega mun barnið einnig þurfa að þola barsmíðar af hans hendi og hún getur ekki hugsað sér aðra leið út úr þessu en að rjúfa meðgönguna og reyna að koma sér burt úr þessu sambandi. Hún var gengin 20 vikur og svarið var NEI! Hún skyldi ganga með þetta barn og sökkva enn dýpra í þessa sjálfseyðingu.
Sigurlaug segir að á stundum eins og þessi dæmi sýna sé allt tal um getnaðarvarnir ekkert nema móðgun og að hún muni aldrei sitja fyrir frama þessar konur og segja þeim hvað þær hefðu átt að gera. Það væri fullkomin lítilsvirðing.
Hún hrósar Ingu fyrir að vera sterkur málsvari fyrir þjóðfélagshópa sem eru útundan í samfélaginu en bendir á að þessar konur séu einmitt þær konur sem hún ætti að vera að berjast fyrir.
„Það eru konurnar sem af einhverjum ástæðum finna ekki leiðina til okkar í besta tímaglugganum í þunguninni, en geta heldur ekki undir nokkrum kringumstæðum séð fram úr því að sjá um barnið sem þær bera undir belti. Þær eru í algerri neyð. Einstaka kona í þessum hópi getur orðið sér út um 500 þúsund krónur og farið til London á einkarekna fóstureyðingarklíník og fengið sína fóstureyðingu, en lögin í Bretlandi leyfa meðgöngurof upp að 24 viku. Svona mismunun viljum við ekki á Íslandi. Við viljum hjálpa öllum konum í neyð, líka þeim sem eiga ekki 500 þúsund krónur,“ skrifar Sigurlaug.
Pistilinn í heild sinni má lesa með því að smella hér.