Auglýsing

Sími hringdi í miðri ræðu þegar Guðni talaði um símaaðskilnaðarkvíða: „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft!“

Síminn hjá skömmustulegum gesti á afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum hringdi í miðri ræðu hjá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Kaldhæðnislega var Guðni að ræða um símaaðskilnaðarkvíða barna og hvernig fullorðnir þurfi að vera betri fyrirmyndir.

Rithöfundarnir Áslaug Jónsdóttir, Kristín Eiríksdóttir og Unnur Jökulsdóttir eru handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017. Guðni undirstrikaði í ræðu sinni að við þurfum að gera betur. „Og það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Og hringir ekki síminn, akkúrat þegar ég er að tala um símann,“ sagði Guðni og uppskar hlátur viðstaddra. „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft,“ endurtók hann og gestir hlógu enn þá meira.

Guðni sagði í ræðu sinni að það liggi fyrir að margir grunnskólanemar, einkum drengir, hætti of snemma að lesa sér til gagns og gamans og sagði að það væri til skaða fyrir þá sjálfa og samfélagið allt.

„Seint á síðasta ári sagði náms- og starfsráðgjafi í Fjölsmiðjunni, því ágæta úrræði fyrir ungmenni sem hafa flosnað upp úr skólakerfinu, að þau komi þangað nánast ólæs. „Hvernig er þetta hægt?“ spurði ráðgjafinn, „þau hafa verið í tíu ár í grunnskóla.“ Um svipað leyti lýsti sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni því að sífellt fleiri krakkar þjást af svonefndum símaaðskilnaðarkvíða, og hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans leitar ungviðið meðferðar við netfíkn og rafrænu skjáheilkenni.“

Guðni hvatti fólk til að vera betri fyrirmyndir. „Til dæmis þannig að foreldrar og forráðamenn grípi í barnabók frekar en símann eftir kvöldmat, að fjölskyldan lesi spennusögu saman í stað þess að hver horfi á eitthvað í sínu horni. Auðvitað geta börn og unglingar plumað sig prýðilega þótt þau leiki sér í tölvu og stytti sér stundir með síma í hönd,“ sagði hann.

„Allt er gott í hófi og almenningur getur vissulega verið önnum kafinn, hvíldinni feginn að kvöldi dags. Og auðvitað leysir bókalestur ekki allan vanda. Eitt sinn þusaði fólk hér út og suður að bókvitið yrði ekki í askana látið.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing