Fjarskiptafyrirtækin Síminn og Nova takast nú á um að fá að vera með aðstöðu á Ingólfstorgi í sumar til að sýna frá Evrópumótinu í fótbolta. Þá vilja fyrirtækin standa fyrir öðrum viðburðum í tengslum við keppnina. Þetta kemur fram á mbl.is.
Gera má ráð fyrir niðurstöðu borgarinnar í næstu viku en réttindamál um útsendingu hafa flækt málið, samkvæmt mbl.is.
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla og markaða hjá Símanum, segir í samtali við mbl.is að ferli Reykjavíkur byggist allt á misskilningi og trú Nova um að félagið hafi rétt til að sýna frá leikjunum hér á landi.
Samkvæmt frétt mbl.is telur Nova sig geta sótt um sýningaleyfi frá evrópska knattspyrnusambandinu (UEFA). Magnús segir það alrangt en Síminn sýnir frá leikjum Evrópumótsins í sumar.
Hildur Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði, segir í samtali við mbl.is að Nova hafi verið gefinn frestur út þessa viku til að skýra mál sitt betur. Hún segir að báðir hópar hafi lagt áherslu að sýna frá keppninni í umsókn sinni og ef annar hvor aðilinn geti ekki sýnt frá viðburðinum missi umsóknin gildi sitt.
Ef þeir geta ekki gert það sem þeir segjast vilja gera þá verður ekki samið við þá.
Þá bendir Hildur á að ekki sé aðeins mögulegt að nýta Ingólfstorg undir viðburði sem þessa.