Tónlistarmógúllinn og X-Factor-dómarinn Simon Cowell er mikill dýravinur og sýndi það í verki fyrir helgi þegar hann ákvað að styrkja hjálparsamtökin Humane Society International um 25 þúsund dali eða tæpar þrjár milljónir króna. Peningum er ætlað að bjarga um 200 hundum frá því að enda á matardiskum í Suður Kóreu.
Samtökin sem voru stofnuð árið 1991 hafa með hjálp sjálfboðaliða lokað 12 sveitabæjum þar sem hundar eru ræktaðir til manneldis. Með því hefur samtökunum tekist að bjarga lífi yfir 1400 dýra. Samtökin aðstoða bændur í greininni við að koma sér upp annarskonar búskap og um leið stöðva hundarækt.
Humane Society International áætla að um 17 þúsund sveitabæir í Suður Kóreu stundi hundarækt og samtökin reikna með að rúmlega tvær milljónir hunda endi á matardiskum í landinu ár hvert.
Simon segir mikilvægt að stöðva þessa þróun. „Þetta er eins og borða vin sinn. Sú gleði og ást sem hundar færa lífi okkar er erfitt að koma í orð,“ sagði Simon í samtali við Good Morning Britain.