Bandaríska fimleikakonan, Simone Biles, hefur nú bæst í hóp þeirra sem saka fyrrverandi lækni bandaríska fimleikalandsliðsins, Larry Nassar um misnotkun. Biles greindi frá þessu á Twitter seint í gærkvöldi.
„Ég er líka ein af þeim sem lifði það af að vera kynferðislega misnotuð af Larry Nassar,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Feelings… ? #MeToo pic.twitter.com/ICiu0FCa0n
— Simone Biles (@Simone_Biles) January 15, 2018
Larry Nassar var á dögunum dæmdur í sextíu ára fangelsi fyrir vörslu barnakláms en hann viðurkenndi einnig að hafa misnotað fimleikastúlkur sem hann var með í meðhöndlun.
Í yfirlýsingu Biles segist hún ekki ætla láta Nassar stela frá sér gleðinni. Hún segist staðráðin í að komast í gegnum þetta og hefur sett stefnuna á að vinna fleiri Ólympíugull í Tókýó 2020.
„Ég veit að þessi hræðilega reynsla mun ekki skilgreina mig því ég er miklu meira en þetta,“ skrifaði Biles.