Sindri Þór Stefánsson er laus úr farbanni gegn tryggingu. Þetta staðfestir Alda Hrönn Jóhannesdóttir, yfirlögfræðingur hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, í samtali við Vísi.is en það var Fréttablaðið sem fyrst greindi frá málinu.
Ekki hefur fengist upp gefið hversu há trygging Sindra Þórs var en Þorgils Þorgilsson, verjandi hans, segir í samtali við Vísi að hann sé nú staddur á Spáni þar sem hann hittir fyrir fjölskyldu sína.
Mál Sindra hefur vakið mikla athygli víða um heim og hefur hann fengið viðurnefnið The Bitcoin Bandit. Hann strauk úr fangelsinu að Sogni um miðjan apríl. Hann flúði til Svíþjóðar og sendi svo frá sér yfirlýsingu í Fréttablaðið þar sem hann sagðist koma fljótlega. Hann var síðar handtekinn í Amsterdam.
Sjá einnig: Sindri sér eftir því að hafa strokið úr fangelsinu að Sogni: „Get verið á flótta eins lengi og ég vil“
Sindri er grunaður um aðild að þjófnaði á um 600 tölvum úr þremur gagnaverum í Reykjanesbæ. Tölvurnar voru útbúnar til að grafa eftir Bitcoin rafmynt og eru ófundnar.