Aðdáendur tölvuhakkarans Lisbeth Salander og blaðamannsins Mikael Blomkvist geta tekið gleði sína á ný því von er á nýrri mynd um raunir þeirra.
Athygli vekur að Claire Foy, sem lék Elísabetu Englandsdrottningu listilega í The Crown, er nánast óþekkjanleg í hlutverki hinnar leðurklæddu Lisbeth Salander. Íslendingurinn Sverrir Guðnason leikur Mikael Blomkvist.
Myndin er byggð á bókinni The Girl in the Spider’s Web, eða Það sem ekki drepur mann í íslenskri þýðingu, sem er sjálfstætt framhald Millenium þríleiksins vinsæla Karlar sem hata konur, Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi. Larsson lést áður en hann gat lokið fjórðu bókina en David Lagercrantz tók upp þráðin og kláraði ætlunarverk hans.
Þetta er ekki fyrsta myndin sem gerð er eftir bókum Stiegs Larsson en Noomi Rapace lék Salander eftirminnilega í sænskri útgáfu myndanna. Hollywood svaraði síðan kallinu árið 2011 þegar Rooney Mara lék í endurgerð fyrstu myndarinnar sem naut talsverðra vinsælda á sínum tíma.
Hér eru þó nýjr leikarar í hverju hlutverki, meðal annars hinn íslenski Sverrir Guðnason.