Starfslið KSÍ var búið að velja dvalarstað íslenska karlalandsliðsins í Rússlandi áður en liðið tryggði sér sæti á HM. Þetta kemur fram á Fótbolti.net. Sjáðu myndirnar hér fyrir neðan.
Landsliðið dvelur á Nadezhda-hótelinu í Gelendzhik sem er 55 þúsund manna strandbær í Krasnodarfylki. Bærinn stendur við Svartahaf. Leikirnir á HM fara fram um allt Rússland en hótelið verður notað sem einskonar bækistöðvar. Fyrsta desember verður dregið í riðla fyrir keppnina en þá kemur fram hvar leikir liðsins fara fram.
Í umfjöllun á Fótbolti.net kemur fram að hótelið sé fimm stjörnur með líkamsræktarsal og fundarherbergjum en þar er einnig að finna sundlaugar og annan lúxus. Tvær hæðir hafa verið bókaðar undir landsliðið.