Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gerði MeToo-byltinguna að umtalsefni í ávarpi sínu þegar Alþingi var sett í dag. Hann segir skilaboð kvenna skýr: Hingað og ekki lengra. Kynferðislegt ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin í samfélaginu. Horfðu á brot úr ræðu Guðna hér fyrir ofan.
„Boðskapurinn er einfaldur og skýr, hingað og ekki lengra. Yfirgangur verður ekki lengur liðinn, við verðum að hlusta og gera betur, við sem búum saman í þessu samfélagi,“ sagði Guðni meðal annars. Hann vísaði þar til umræðunnar um kynferðislega áreitni og ofbeldi í samfélaginu. Hann sagðist vona að við stæðum á tímamótum í þessum efnum.
Guðni bætti við að augljóst væri að nei þýddi nei og það bæri að virða. „Málstaðurinn er það sterkur, þörfin það brýn. Þrátt fyrir allt okkar ósætti, allar okkar ólíku hugsjónir skulum við standa saman um grundvöll okkar samfélags,“ sagði Guðni.
Þá vitnaði hann í Elísabetu Jökulsdóttur sem birti eftirfarandi prósa á Facebook á dögunum:
„Það eru allskonar venjulegir menn jafnvel vinir mínir að kvarta undan þessari metoo bylgju sem er í gangi,
þeir segja „ekkert má maður“ og „hvað má eiginlega“ og ekkert má
maður lengur.
Við þá vil ég segja, það má ekkert, maður biður
um leyfi fyrir öllu;
Má ég sýna þér hvað ég var að skrifa.
má ég fá tannkremið, má ég fá mjólkina,
má ég knúsa þig, má ég fá lánaða húfuna þína..“