Ísland er í sviðsljósinu í fréttaskýringaþættinum ástralska Dateline sem fjallar um jafnrétti kynjanna. Í þættinum er meðal annars fjallað um Kvennafrídaginn árið 1975, talað við íslenska feðga, farið í heimsókn í Hjallastefnuskóla og fjallað um konurnar sem hafa verið hér við völd í gegnum árin. Sjáðu þáttinn í heild sinni hér neðst.
Þátturinn um Ísland er seinni hluti af umfjöllun Dateline um kyn en í fyrri þættinum var fjallað um karlmennskuímyndir í Bandaríkjunum. Þar var rætt við menn sem héldu því meðal annars fram að karlmennskan væri á undanhaldi og að launamunur kynjanna væri aðeins mýta.
Eins og áður segir er meðal annars fjallað um Kvennafrídaginn og rætt við íslenska feðga og unga fjölskyldu um hve langt kynjajafnrétti hefur náð á stuttum tíma.
„Ein af ástæðunum fyrir því að Ísland er efst á lista yfir jafnrétti kynjanna gæti verið leiksólarnir en þar er grafið undan staðalímyndum,“ segir þáttastjórnandinn Janice Petersen en hún fór í heimsókn á leikskóla Hjallastefnunnar og kynnti sér aðferðir þeirra.
Janice segir að lokum umhverfið hér á landi vera fjandsamlegt en fólkið ekki. Þjóðin eigi ríka sögu um sterka kvennleiðtoga og í svo litlu samfélagið sé auðvelt að setja sterkustu jafnréttislög sem finnast í heiminum. Það sé gott fyrir konur og karla.
Ekki eru þó allir á eitt sáttir við umfjöllun þáttarins en í athugasemdum við þáttinn á Youtube eiga margir erfitt með að horfa upp á það sem er að gerast hér á landi.
„Þetta er ástæðan fyrir því að Ísland er veikt land“ skrifar einn notandi en annar sakar Íslendinga um ofbeldi gagnvart börnum vegna skóla Hjallastefnunnar og enn annar notandi segir Ísland dauðadæmt.