Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi, eða 24,7%, í nýjustu könnun MMR. Það er tæpum þremur prósentustigum meira en hann mældist með í síðustu könnun.
Um er að ræða könnun sem fór fram dagana 26. – 28. október. Í síðustu könnun, sem lauk 26. október, var flokkurinn með 21,9% fylgi.
Píratar koma næst á eftir með 20,5% fylgi sem er ívið hærra en fylgi þeirra í síðustu könnun (19,1%).
Vinstri græn mældust með 16,2% fylgi sem er svotil sama fylgi og þeir mældust með í síðustu könnun (16,0%).
Framsóknarflokkurinn mældist nú með 11,4% fylgi, sem er ívið hærra en þeir mældust með í síðustu könnun (10,0%).
Viðreisn mældist nú með 8,9% fylgi sem er svo til sama fylgi og í síðustu könnun (9,3%).
Björt framtíð mældist nú með 6,7% fylgi, sem er um 2 prósentustigum lægra en í síðustu könnun (8,8%).
Samfylkingin mældist nú með 6,1% fylgi, sem er minnsta fylgi þeirra síðan mælingar MMR hófust og ívið lægra heldur en í síðustu könnun (7,6%).
Fylgi annarra flokka mældist um og undir 2%.
Í frétt á vef MMR segir að fylgi flokkanna hafi reynst töluvert frábrugðið eftir bakgrunni kjósenda.
Til að mynda voru konur mun líklegri til að kjósa Vinstri græn en karlar mun líklegri til að kjósa Framsókn. Eins var fólk búsett á landsbyggðinni nær fimmfalt líklegra til að kjósa Framsókn en fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru aftur á móti mun líklegri til að kjósa Viðreisn.
Einnig reyndist mikill munur á afstöðu eftir aldurshópum.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin sóttu fylgi sitt til að mynda frekar til þeirra sem eldri voru á meðan Björt framtíð og einkum Píratar sóttu fylgi sitt frekar til þeirra sem yngri voru.
Því má velta því upp að ef kosningaþátttaka yngra fólks verður hlutfallslega minni heldur en eldra fólks, eins og gerst hefur í fyrri kosningum, má leiða líkur að því að kjörfylgi þeirra flokka sem ná betur til þeirra sem yngri verði lægra en könnunin gefur til kynna, segir í frétt MMR.