Jólin eru að margra mati besti tími ársins. Fólk fær frí í vinnu, borðar yfir sig af óhollum mat, fer á jólatónleika og hlustar á æðisleg jólalög. Á ritstjórn Nútímans er hins vegar fólk sem er ekki á sama máli og getur ekki beðið eftir því að janúar skelli á.
Óskiljanleg afstaða en við leyfðum þeim samt að telja upp sjö ástæður fyrir því að jólin séu ekki besti tími ársins, heldur sá versti. Við sjáum strax eftir því að hafa birt þetta.
1. Jólin breyta börnum í ófreskjur
Börn eru yfirleitt ótrúlega skemmtilegar og fallegar lífverur. Jólin hafa hins vegar hræðileg áhrif á þessa litlu sólargeisla pabba og mömmu og gera þau óþolandi í allavega tvo til þrjá mánuði. Fyrst byrja þau að hlakka til og svo byrja spurningarnar: „Hvenær koma jólin?“, „Af hverju eru ekki jólin komin?“, „Eru jólin á morgun?“. Þegar þarna er komið við sögu er enn þá október. Jólahátíðin sjálf er svo martröð allra foreldra sem þurfa að múta börnunum sínum með gjöf fyrir mat svo þau séu til í að sitja kyrr í fimm mínútur. Pakkarnir afhjúpa svo allt sem hefur misfarist í uppeldinu síðustu ár og ófáir foreldrar hafa velt fyrir sér að kalla til prest vegna gruns um að börnin þeirra séu andsetin. Þessu verður að linna. Hugsum um börnin!
2. Jólin eru tími vondrar tónlistar
Á Íslandi hafa verið samin, á að giska 1.000 jólalög sem fá að óma í viðtækjum landsmanna frá miðjum nóvember. Gróflega reiknað þá eru svona 950 þessara laga hræðilega vond og ef ekki væri fyrir Helgu Möller væri hlutfallið mun hærra. Guð blessi Helgu Möller!
3. Fólk borðar bara Sörur fyrir jól
Af hverju eru ekki bakaðar Sörur allt árið? Af hverju fást þær ekki í kexpökkum í Bónus í júlí og ágúst? Jólahátíðin er notuð til að stýra neyslu á Sörum í algjört lágmark þegar við ættum að vera að borða þær alla daga, allt árið um kring Og drekka jólaöl með. Af hverju drekkur enginn jólaöl á sumrin?
4. Tónlistarbransinn hefur okkur að fíflum
Jólatónleikahald er fyrir löngu farið úr böndunum. Á meðal þeirra sem halda jólatónleika í ár eru Bó, Baggalútur, Sigga Beinteins, Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveitin Eva, Hljómfélagið, Sigga Eyrún, Sætabrauðsdrengirnir, Borgardætur, Margrét Eir, Eivör, Stefán Hilmarsson, Stebbi Jak og Andri Ívars, Kristjana Stefáns, Ragga Gröndal og Svavar Knútur, Kristjana Arngrímsdóttir, Kammersveit Reykjavíkur, Ljótu hálfivtarnir, Greta Salóme, KK og Ellen, Sigríður Thorlacius og Valdimar, Fíladelfía, Páll Óskar og Monika og meira að segja Emmsjé Gauti! Ef þetta heldur svona áfram seljast fleiri tónleikamiðar en hangilæri fyrir jól. Við erum mjög (hamborgar)hrygg yfir þessari þróun.
5. Jólin eru ógeðslega dýr
Ekki misskilja okkur. Við elskum dýrt dót. Við dýrkum að eyða peningum í eitthvað sem við þurfum í mesta lagi í þrjá daga og myndum taka iPhone í áskrift ef það kæmu fleiri en tveir á ári. Málið með jólin er að við erum að eyða í eitthvað sem okkur langar ekki að eyða í. Við bætum í draslhrúguna hjá fólki sem er þegar búið að kaupa sér allt sem það langar í, kaupum dót handa börnum sem muna ekki nöfnin okkar og fáum svo taugaáfall yfir gjöfum fyrir maka okkar sem við böðum í ást (og allskonar drasli) allt árið hvort sem er. Þetta getur ekki verið hollt. Vonandi verður klukkan leiðrétt svo við hættum að haga okkur eins og fífl.
6. Jólin eru tíminn sem ofmetin matvara tekur yfir
Á jólunum borðum við mat sem ekki er seldur allt árið um kring og það er ástæða fyrir því. Hann er vondur. Dæmi um slíkan mat er laufabrauð. Þú getur ekki farið í Jóa Fel á heitum sumardegi í ágúst og keypt þér eitt laufabrauð og kókómjólk. Það er vegna þess að laufabrauð er hart, þurrt og bragðast eins og fita.
7. Börnin (Jólaófreskjurnar) fara í langt frí
Það er vissulega gott að verja tíma með afkvæmum sínum en eins og greint var frá hér að ofan breyta jólin börnunum okkar í ófreskjur sem fara í allt of langt frí yfir jólin. Við viljum geta haft ömmur og afa til að passa hina ellefu mánuðina og því er ekki mælt með taka út ömmu og afa tíma yfir jólin.