Skemmtileg umræða hefur skapast á Twitter um mál sem er augljóslega meira hitamál en áður var talið: Hver á að vaska upp eftir matinn? Læknaneminn Margrét Arna Viktorsdóttir segir frá raunum sínum við að reyna að innleiða reglu um að sá sem eldar eigi líka að vaska upp en miðað við umræður sem sköpuðust í kjölfarið virðast ekki allir vera sammála. Taktu þátt í könnunni hér fyrir neðan.
Var tímabundið að flytja inn með 5 strákum á Akureyri og gengur mjög illa að innleiða regluna að sá sem eldar vaskar líka upp.
— Margrét Arna (@margretviktors) March 11, 2018
Það er rétt að taka fram að ritstjóri Nútímans tók þátt í umræðunum og var afdráttarlaus þegar hann benti á að reglan væri ósanngjörn. Margrét útskýrði í kjölfarið regluna og sagðist vaska upp á meðan hún eldar. „Svo það þarf mjög lítið að vaska upp eftir mig. Sumir vaska upp eftir mat og þar af leiðandi er mikið uppvask eftir þá,“ segir hún.
Sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson blandar sér í umræðuna og tekur í sama streng og Margrét: „Ég er sammála Margrétar-reglunni hér. Sumir elda snyrtilega, aðrir einsog amatörar og skilja allt eftir í rúst. Snyrtilegur kokkur á ekki að þurfa að taka til eftir hamfarakokk,“ segir hann.
Plötusnúðurinn Sunna Ben er hins vegar á öðru máli: „Það er svo einkennilegt að refsa fólki svona grimmilega fyrir góða hegðun!“ segir hún ómyrk í máli.