Tveimur skipverjum á Bíldsey SH 65 hefur verið sagt upp störfum í kjölfar frétta af dýraníði þeirra í dag. DV.is fjallaði fyrst um myndband sem hefur farið eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla í dag þar sem þeir sjást skera sporð af lifandi hákarli og hlæja svo eftir að þeir sleppa honum lausum.
Sæfell, eigandi og útgerðaraðili Bíldseyjar SH 65, sendi út tilkynningu vegna málsins sem birtist á vef RÚV. Í yfirlýsingunni segir að þau harmi og fordæmi þann óhugnalega verknað sem sjáist í myndbandinu. Verknaðurinn sé óréttlætanlegur og að skipverjarnir eigi sér engar málsbætur.
Myndbandið má sjá á vef DV með því að smella hér.
Yfirlýsing Sæfells í heild sinni
Við eigendur og útgerðaraðilar Bíldseyjar SH 65 hörmum og fordæmum þann óhugnanlega atburð sem kemur fram í myndbandi sem fylgir frétt DV í dag.
Við höfum hingað til reynt að tileinka okkur góð vinnubrögð og ábyrga umgengni um auðlindina og lífríkið almennt.
Þessi atburður er algjörlega óréttlætanlegur og þeir sem stóðu þarna að verki eiga sér engar málsbætur.
Eigendur og útgerðaraðilar Bíldseyjar SH 65 eiga ekki annan kost en að hafna frekari vinnuframlagi manna sem sýna af sér slíka hegðun.