Kostnaður við skönnun Alþingistíðinda frá upphafi hefur farið langt fram úr upphaflegum áætlunum. Kostnaður við verkið stendur nú í tæplega tvö hundruð milljónum króna og er ekki lokið. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Verkefnið átti að taka um þrjú ár í vinnslu en nú, 12 árum eftir að það hófst, á enn eftir að skanna um 100 ár af Alþingistíðindum og ekki sér fyrir endann á verkinu.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir engan hafa séð fyrir hversu umfangsmikið þetta verk væri. „Menn hafa greinilega vanáætlað verkið gríðarlega. Um viðamikið verk er að ræða,“ segir hann.
Það er búið að skanna allt, öll þingtíðindin. Hins vegar er mikil vinna eftir við að klippa niður skjöl, bæði þingskjöl og einstakar ræður, stilla þessu upp og koma því inn á vefinn. Við höfum lagt mikla áherslu á gera vefinn okkar sem allra bestan og þetta verkefni er hluti af því, að eldri þingtíðindi séu aðgengileg, bæði þingmönnum og öllum almenningi.
Vinnan hefur farið fram á Hvammstanga og í Ólafsfirði. Samkvæmt Halldóri Blöndal, forseta Alþingis þegar verkefnið hófst, átti verkefnið að vera liður í því að flytja störf út á land og gera fleirum kleift að vinna opinber störf óháð búsetu.
Tveir vinna nú við verkefnið í Ólafsfirði en starfsemi á Hammstanga er lokið. 183 milljónum hefur verið varið í verkefnið í Ólafsfirði.