Skopmynd Morgunblaðsins í dag vakti mikla athygli. Margir gagnrýndu myndina á samfélagsmiðlum og Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði hana Morgunblaðinu til ævarandi skammar.
„Hversu lágt er hægt að leggjast í sorpblaðamennsku? Ég tel að neðar sé ekki hægt að fara. Þessi mynd sem á að kallast skopmynd er ekkert annað en viðbjóður og Morgunblaðinu og eigendum þess til ævarandi skammar,“ sagði hann.
Sjá einnig: „Þessi mynd er ekkert annað en viðbjóður“
Rætt var við höfund myndarinnar, skopmyndateiknarann Helga Sig, í Íslandi í dag í kvöld. Hann sagði að fólk geti valið hvernig það les hana. „Þetta er kaldhæðni. Þessi mynd er ekki illa meint, sagði hann.
Fyrst og fremst er þetta skuggamynd af sökkvandi skipi. Það er ekki verið að sýna svart fólk eða hvítt fólk. Þetta er í rauninni mynd af Sýrlandi, skilurðu.
Nýyrðið „helferðartúrismi“ vakti talsverða athygi og Helgi sagði í Íslandi í dag það rímaði við velferðarkerfið — helferðarkerfið.
„Í Svíþjóð er talað um að Svíar séu orðnir í minnihluta í mörgum þorpum. Það er töluvert mikið af hælisleitendum og flóttamönnum,“ sagði hann.
„Ég vildi sýna snapshot af þessu ástandi þar sem fólk er að flæða svona yfir. Þetta lítur soldið út eins og túrismi, ef maður tekur þetta og yfirfærir á massatúrisma fólks sem er að fara í sólarlandaferðir. Þetta er yfirfærð merking.“
Helgi var svo spurður hvort myndin væri fyndin.
„Mér finnst það fyndið að Mið-Austurlönd og þessar tvær, þrjár milljónir flóttamanna séu að kalla á Eygló Harðardóttur til að bjarga sér,“ sagði hann í Íslandi í dag.