Tæplega hundrað og fimmtíu manns hafa skorað á 365 að segja Snærós Sindradóttur upp vegna umfjöllunar í Fréttablaðinu og á visir.is þar sem Thelma Björk Steimann, barnsmóðir og fyrrverandi kærasta Hafþórs Júlíusar Björnssonar, ber hann þungum sökum.
Þá vill fólkið einnig að fjölmiðillinn biðji Hafþór Júlíus afsökunar á skrifunum og leyfi honum að segja sína hlið á málinu. Um er að ræða Facebook-hóp sem ber yfirskriftina „Ég skora á Fréttablaðið/visir.is að segja Snærósu upp störfum…“. Snærós sagði starfi sínu sem blaðamaður á Fréttablaðinu aftur á móti lausu fyrr í þessum mánuði og tekur við starfi verkefnastjóra UngRÚV í byrjun ágúst. Því er til lítils að segja henni upp.
Sjá einnig: Hafþór Júlíus birtir tölvupóst frá húsverðinum sem heyrði lætin: „Viðurkenndi að hafa gengið of langt“
Hafþór Júlíus Björnsson hefur birt tvær færslur á Facebook þar sem hann hafnar ásökunum um að hafa beitt fyrrverandi kærustur sínar ofbeldi. Hann viðurkennir að eiga við skapgerðarvandamál að stríða og birtir brot úr tölvupósti frá húsverði sem vitnað var í viðtali við barnsmóður hans í Fréttablaðinu um helgina.
Í viðtalinu í Fréttablaðinu kemur meðal annars fram að húsvörður á heimavist á Selfossi, þar sem Hafþór og Thelma bjuggu saman, hafi stöðvað ofbeldið í hvert sinn sem hún heyrði hávaðann. Fréttablaðið hafði samband við konuna sem staðfesti að hún hafi oft þurft að hafa afskipti af parinu.
Lögmaður Hafþórs hafði samband við húsvörðinn og í annarri færslunni á Facebook birtir Hafþór brot úr tölvupósti frá húsverðinum til lögmannsins. Í bréfinu segist húsvörðurinn aldrei hafa orðið beint vitni af líkamlegum átökum milli Hafþórs og Thelmu. Hún segist hins vegar all nokkrum sinnum haft afskipti af þeim vegna skarkala og hrópa sem komu frá íbúð þeirra.