Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um þjófnað úr skórekka í sundlaug í Reykjavík í gær en samkvæmt dagbók lögreglu er þjófurinn ófundinn og er málið sagt í rannsókn. Þetta útkall var á meðal þeirra verkefna embættisins frá 17:00 í gær til 05:00 í morgun.
Þá bárust fjöldi tilkynninga um þjófnað úr matvöruverslunum í nánast öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins. Einnig barst fjöldi tilkynninga vegna grunsamlegra mannaferða, hávaðatilkynningar og þá var nokkrum „óvelkomnum aðilum vísað á brott“ af hinum ýmsu stöðum.
Þá lét einn aðili ófriðlega á krá í Reykjavík. Sá var ölvaður, æstur, óðamála og hávær.
„Hlýddi engum fyrirmælum lögreglu. Handtekinn og vistaður í klefa sökum ástands og hegðunar,“ segir í dagbókinni.
Tilkynning um umferðarslys barst lögreglunni líka á þessu tímabili en þar hafði ljósastaur verið ekinn niður. Ökumaðurinn reyndist hvorki ölvaður né undir áhrifum annarra efna. Hann játaði að hafa ekið of hratt og misst stjórn á bifreiðinni sem var óökufær eftir áreksturinn.