Leikstjórapar á vegum alþjóðlega framleiðslufyrirtækisins Pulse Films framleiddi myndband Íslandsstofu, sem er ætlað að kynna Ísland erlendis sem spennandi vetraráfangastað. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn undra sig á því að ekki hafi verið leitað til fagfólks hérlendis. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Stefanía Thors, varaformaður Félags kvikmyndagerðarmanna, segir í samtali við Fréttablaðið mjög skrítið að Íslandsstofa treysti ekki íslensku fagfólki til að kynna Ísland.
Það skýtur skökku við að nota erlend fyrirtæki til þess að kynna Ísland. Er ekki alltaf verið að tala um að það vanti gjaldeyri inn í landið en þeir borga erlendum aðilum fyrir þessa vinnu.
Myndbandið er hluti af herferðinni Inspired by Iceland og var unnið í samstarfi við Íslensku auglýsingastofuna, almannatengslaskrifstofuna Brooklyn Brothers í London og Pulse Films.
Daði Guðjónsson hjá Íslandsstofu segir í samtali við Fréttablaðið tækifæri hafa falist í því að fá erlenda í verkið:
„Glöggt er gestsaugað,“ segir hann. „Við vorum að fara í gang með þennan leyndarmálatúr og við vildum að þeir sem færu förina vissu ekki mikið um landið. Þetta er margverðlaunað leikstjórapar sem hefur unnið með heimsþekktum aðilum eins og 50 cents, Kate Perry og Nokia. Það má ekki gleyma að þetta er markaðsherferð á heimsvísu og það eru ákveðin tækifæri í kynningu að fá svona aðila til að vinna með okkur.“
Fyrir gerð myndbandsins var efnt til samkeppni þar sem fólk átti að lýsa draumaferðalagi um Ísland. Jennifer Asmundson og Corina, vinkona hennar, unnu svo ferð til Íslands. Myndbandið má sjá hér:
Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af einni einustu frétt.