Skuldaleiðréttingin var æfð í Hörpunni í gær, samkvæmt heimildum Nútímans.
Í dag verða niðurstöður leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum kynntar í Hörpu og á morgun verða niðurstöðurnar birtar 69 þúsund heimilum á heimasíðu verkefnisins, leiðrétting.is.
Heimildir Nútímans herma að generalprufan hafi farið fram í Kaldalónssal Hörpu í gær. Æfingin virðist hafa gengið vel þar sem niðurstöðurnar verða kynntar þar klukkan 13.30.
Bein lækkun höfuðstóls í leiðréttingunni er að meðaltali um 1,3 milljónir króna, samkvæmt grein sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ritar í Morgunblaðið í dag:
Leiðréttingin færir verðtryggð lán heimilanna í þá stöðu sem þau hefðu verið í ef óvænt og mikil verðbólga hefði ekki sett skuldastöðu heimilanna í uppnám á árunum 2008 og 2009. Á þessum tíma var mikið ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap. Gengi íslensku krónunnar hrapaði, verðbólga fór úr böndunum, eignaverð hrundi og samdráttur varð í landsframleiðslu.
Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.