111 fastráðnum starfsmönnum WOW Air var í dag sagt upp störfum og ná uppsagnir þvert á fyrirtækið. Þá munu samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn ekki verða endurnýjaðir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW.
„Þetta er erfiðasti dagurinn í sögu WOW air. Við erum með frábæran hóp af fólki sem hefur lagt hart að sér að gera WOW air að veruleika og það er því sorglegt að neyðast til að fara í þennan niðurskurð. Ég vildi óska þess að það væri til önnur leið en staðreyndin er sú að við verðum að snúa við rekstrinum og koma honum aftur í gott horf áður en við getum hafið uppbygginguna að nýju“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW Air í tilkynningunni.
Uppsagnirnar eru liður í að einfalda reksturinn. „Síðastliðið ár hefur reynst WOW air mjög erfitt í rekstri og unnið hefur verið markvisst að því undanfarið að snúa rekstrinum við til hins betra og fjármagna félagið. Eins og fram hefur komið er Indigo Partners að vinna með WOW air um að tryggja langtíma fjármögnun félagsins. Liður í þeirri vinnu er að einfalda rekstur WOW air og ná arðsemi á ný en félagið skilaði hagnaði árin 2015 og 2016,“ segir í tilkynningu.