Eins og við greindum frá í dag hefur Icelandair keypt flugfélagið WOW. Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW segist stoltur, en nú taki við nýr kafli.
Stjórn Icelandair Group gerði kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Kaupin eru meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.
Skúli segist stoltur af þeim árangri og þeirri uppbyggingu sem WOW air hafi náð á undanförnum árum og er þakklátur fyrir þær viðtökur sem flugfélagið hefur fengið frá fyrsta degi.
„Við höfum byggt upp öflugt teymi sem hefur náð eftirtektaverðum árangri og verið brautryðjandi í lággjaldaflugi yfir Norður-Atlantshafið. Nú tekur nýr kafli við þar sem WOW air fær tækifæri til að vaxa og dafna með öflugan bakhjarl eins og Icelandair Group sem mun styrkja stoðir félagsins enn frekar í alþjóðlegri samkeppni,“ segir hann.