Allt tiltækt lið slökkviðs höfuðborgarsvæðisins var kallað út í Krummahóla í Breiðholti á níunda tímanum í morgun eftir að tilkynning barst um reyk. Útkallið barst kl. 8.50.
Þegar slökkvilið kom á staðinn reyndist maður vera að grilla á svölum íbúðarhúss í götunni og engin hætta á ferðum.
Slökkviliðsmenn ræddu við manninn sem hélt síðan áfram að grilla eins og ekkert hefði í skorist, segir Rúnar Helgason, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Nútímann.
Við höfum fullan skilning á því að menn þurfi að borða, sama á hvaða tíma sólarhrings það er.
Engum sögum fer af því hvað var á grillinu hjá manninum þennan morguninn.
Kl. 9 í morgun voru 13 m/sek í Reykjavík, níu stiga hiti og lítilsháttar rigning.