Snærós Sindradóttir hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra UngRÚV. Hún hefur störf í byrjun ágúst og leiðir uppbyggingu á þjónustu RÚV fyrir ungt fólk þvert á miðla. Þetta kemur fram í tölvupósti frá Þóru Margréti Pálsdóttur mannauðsstjóra til starfsfólks RÚV.
Snærós er 25 ára og hefur starfað sem blaðamaður hjá Fréttablaðinu undanfarin ár. Í póstinum til starfsfólks RÚV kemur fram að Snærós komi inn með skýra sýn á nýjar leiðir í miðlun almannaþjónustu til ungs fólks og þekkir vel þær áskoranir sem hefðbundnir fjölmiðlar standa frammi fyrir í dag.
„Hún hlaut blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir viðtal ársins 2016 og starfaði þar áður með ungu fólki hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar,“ segir í póstinum.
Þá kemur fram að á meðal aðaláherslna í nýrri stefnu RÚV til 2021 sé að RÚV ætli að bæta þjónustu við fólk á aldrinum 15-29 ára. „Verkefni Snærósar er að opna og leiða samtalið við ungt fólk, rýna í þarfir hópsins og koma með tillögur að úrbótum á þjónustu RÚV við hópinn,“ segir í póstinum.
Hún þróar tillögur að nýrri þjónustu og miðlun til að sinna þörfum þeirra, auk þess sem hún rýnir núverandi dagskrárframboð og tekur ákvarðanir um dagskrá í samstarfi við dagskrárstjóra.
Loks kemur fram að RÚV ætli með haustinu að mynda faghóp um þjónustu við ungt fólk og að Snærós starfi náið með honum.