Veitingastaðurinn Hard Rock Café í Reykjavík auglýsir eftir starfsfólki í allar stöður tæpum mánuði eftir að hátt í þrjú hundruð manns sóttu um starf þar. Staðurinn hefur verið opinn í viku.
Sjötíu manns fengu vinnu, eða um þriðjungur þeirra sem að sóttu um. Framkvæmdastjórinn segir að snarbilað hafi verið að gera frá opnun staðarins og því sé þörf á fleira starfsfólki.
Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock Café á Íslandi segir í samtali við Nútímann að markmiðið sé alltaf að reyna að finna rétta fólkið.
Það var ekki að smella í þessum viðtölum, við vorum að leita að fólki sem við treystum í vinnuna.
Í auglýsingunni fyrir prufurnar í september sagði að óskað væri eftir sannkölluðum rokkstjörnum, úrræðagóðu og svölu fólki sem vinnur vel undir álagi og bregst hárrétt við í krefjandi aðstæðum.
Áður en hægt var að senda inn umsókn fylltu umsækjendur út svokallað rokkpróf.
Þar voru nokkrar spurningar þar sem verið var að kanna hvort umsækjendur væru „nógu Hard Rock“.
Stefán segir að álagið hafi verið mikið fyrstu vikuna og staðurinn hafi meira og minna verið fullur.
„Það er búið að vera snarbilað að gera, við þurfum svo marga á vaktir. Þetta er svo rosalega stórt,“ segir hann.
Stefán bætir við að hann vanti talsvert af fólki til að ná að manna eldhúsið, verslunina og þjónustustörfin.
Hann segist þó ekki reikna með að halda áheyrnarprufur til að finna rétta starfsfólkið, nú verði farin önnur leið.