Tveir leikmenn fótboltaliðsins Sparta Prague munu æfa með kvennaliði félagsins á næstunni. Það væri ekki í frásögur færandi nema af því að þeir eru karlkyns og er með þessu verið að refsa þeim fyrir óviðeigandi athugasemdir þeirra.
Mennirnir sögðu að kvenkyns dómari, sem kom ekki auga á rangstöðu á ellefu stundu í leik Sparta Prague við Zbrojovka Brno, ætti heima í eldhúsinu, ekki á fótboltavellinum, líkt og kemur fram í frétt Guardian.
Alois Hycka, leikmaður Zbrojovka Brno, skoraði þegar 92 mínútur voru liðnar af leiknum, og kom liði sínu í stöðuna 3 – 2 en var rangstæður. Þar sem dómarinn kom ekki auga á brotið fór Zbrojovka Brno með sigur af hólmi.
Tomas Koubek, markvörður Sparta Prague, sagði í samtali við fjölmiðla eftir leikinn að hann teldi að konur ættu að vera við eldavélina og koma ekki nálægt fótboltaleikjum karlmanna. Lukas Vacja deildi mynd af dómaranum á Twitter og skrifaði: „Í eldhúsið.“
Báðir leikmennirnir báðust afsökunar en formaður félagsins, Miroslac Pelta, segir ummæli leikmannanna algjörlega óásættanleg. Sagði hann konur vera mikilvægan hluta af fótbolta og að leikmennirnir myndu æfa með konunum á næstunni svo þeir átti sig á því að hæfileikar kvenna séu ekki aðeins í eldhúsinu.