Sólarleysismet var slegið í Reykjavík í júní og ekki hefur verið minni sól í Reykjavík í júní í 100 ár. Þetta segir Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við RÚV í dag.
Sólskinsstundir í Reykjavík í júní voru 70,6 sem er 37% af meðaltalinu síðustu 10 ár. Hámarkshiti í júní náði ekki nema rúmlega 13 gráðum og Reykjavík var 1,6 gráðum undir meðalhita stíðustu 10 ára.
Elín Björk segir allt benda til þess að þetta sé minnsta sól í Reykjavík í júní í 100 ár. Ekkert eitt valdi þessu en óvenjulegt ástand séu búið að vera í háloftunum.
Sjá einnig: Mikið að gera hjá sólbaðsstofum og ferðaskrifstofum: „Það er bara ekkert sumar hérna”
Allt annað hefur verið uppi á teningnum fyrir norðan og austan í júní. Hiti hefur verið fyrir ofan meðallag en á Akureyri var hann einni gráðu hærri en síðustu 10 ár og á Dalatangi á Austurlandi var hitinn 1,5 gráðu fyrir ofan meðallag. Hæsti hitinn í júnímánuði var 24,3 gráður í Ásbyrgi þann 29. júní.
Það er ekki að sjá að það fari að létta til á suðvesturhorninu á næstunni að sögn Elínar. „Það er ekki að sjá einhverja breytingu þar sem við fáum allt í einu hlýtt loft yfir landið og það verði heiðskírt á öllu landinu, það er ekkert slíkt í kortunum.“
Hræðileg langtímaspá fyrir Reykjavík gekk um á samfélagsmiðlum fyrr í vor og átti að vera gabb. Ingþór Ingólfsson setti myndina saman í spaugi en hún virðist vera nær raunveruleikanum en ætlunin var.
Hér má sjá umrædda spá en hún sýnir aðeins tvo sólardaga í júní, ekki svo fjarri lagi
Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni, birti tíst í byrjun júní sem lýsir ástandinu fullkomlega
SV-land vs. NA-land núna í morgunsárið. Mmmkey#Iceland #Veðurlíf #Sjómannadagurinn pic.twitter.com/oN6ECMYIr9
— Birta Líf Kristinsdóttir (@birtalif) June 3, 2018