Tónlistarveitan Spotify hefur dregið til baka stefnu sem gerði það að verkum að tónlist R. Kelly var fjarlægð af veitunni. Í yfirlýsingu frá Spotify í gær var sagt að stefnan hefði valdið ruglingi og áhyggjum.
Stefnan sem sneri að „hatursefni og hatursfullri hegðun“ var kynnt í maí. Hún varð strax umdeild og plötufyrirtæki Kendrick Lamar hótaði meðal annars að fjarlægja tónlist sína af Spotify. Öll lög rapparans R. Kelly voru fjarlægð af Spotify en hann hefur ítrekað verið sakaður um kynferðislega misnotkun.
Á miðvikudag sagði Daniel Ek, framkvæmdastjóri Spotify, að það hefði verið hægt að gera mun betur í framkvæmd stefnunnar. Í tilkynningunni sem sem send var út í gær segir að umdeildir listamenn þurfi ekki að hafa áhyggjur að efni þeirra yrði fjarlægt.
„Við sköpuðum áhyggjur á meðal listamanna. Fólk hafði áhyggjur af því að ásakanir á hendur listamanna myndu hafa áhrif á tækifæri þeirra til þess að koma tónlist sinni á framfæri,” segir í tilkynningunni.
Sumir listamenn höfðu meira að segja áhyggjur af því að mistök úr fortíð þeirra myndu hafa áhrif. Við ætlum okkur ekki að vera dómstólar.
Spotify mun því ekki fjarlægja efni umdeildra listamanna en í tilkynningunni kemur þó fram að efni sem hefur það að megintilgangi að stuðla að hatri og ofbeldi verði ekki leyft.