Fréttir um mann sem átti að vera undirlagður bandormum eftir sushi-át hefur vakið mikla athygli. Í fréttinni kemur eftirfarandi fram: „Kínverskur karlmaður liggur nú á milli heims og helju eftir að hafa innbyrt sushi í gríðarlega miklu magni. Maðurinn segist elska sushi og sashimi og borðaði það í nær öll mál. Um sinn hvorn réttinn er þó að ræða, en samanstanda þeir báðir af hráum og/eða vanelduðum fiski.“
Þetta er rangt og Vísir hefur birt leiðréttingu.
Dýralæknirinn Sif Traustadóttir Rossi kannaði málið og segir myndina sem fylgir fréttunum ekki passa við textann. „Þetta er sem sagt svokölluð „urban legend“ eða falsfrétt,“ segir hún. „Reynt er að gera þetta trúverðugara með því að vitna í rannsókn sem birt hafði verið í Canadian Family Physician en enginn hlekkur fylgdi. Þar sem ég er menntuð sem dýralæknir og kannast því við bandormasýkingar þótti mér þessi saga eitthvað undarleg og ákvað að kanna þetta aðeins nánar.“
Sif segir rétt að einhver aukning hefur verið í bandormasmiti úr hráum fiski:
En það eru fleiri réttir en sushi sem innihalda hráann fisk, auk þess sem ekki er um að ræða þvílíkan faraldur eins og lýst er í frétt DV. Fiskibandormur getur mögulega vaxið í iðrum fólks en er auðvelt að útrýma með lyfjagjöf, hann er bundinn við meltingarveg og sést ekki á röntgenmyndum.
Myndirnar koma hins vegar úr þessarri grein í BMJ case reports: http://casereports.bmj.com/content/2014/bcr-2013-202807.full
Þessi sjúklingur er sýktur af svínabandormi og hefur fengið afbrigði af honum sem veldur því að kalkaðar blöðrur myndast víða um líkamann. Þetta smitast með hráu kjöti en ekki fiski. Sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur á vesturlöndum þar sem ekki er til siðs að éta hrátt svínakjöt.
Siggi San, matreiðslumaður og eigandi SuZushii í Kringlunni, segir í samtali við Vísi að sögur sem þessar séu algengar en þó sjaldnast sannar. Hann segir strangar reglur gilda um matreiðslu sushi og að fiskurinn þurfi að vera vottaður af yfirdýralækni. Það eru því litlar sem engar líkur séu á að fólk sýkist af einhvers konar sníkjudýrum.
„Við viljum bara biðja fólk um að halda ró sinni. Það eru fagmenntaðir matreiðslumenn með þessa hluti algjörlega á hreinu. Ég persónulega hef gert sushi í 14 ár og aldrei komið upp eitt einasta tilvik,“ segir Siggi í frétt Vísis.