Eldfjallafræðingurinn Þorvaldur Þórðarsson segir að búast megi við stærra eldgosi á Reykjanesi á næstu dögum miðað við kvikusöfnun en telur þó mjög ólíklegt að hún muni koma upp innan bæjarmarka Grindavíkur.
Þetta kemur fram í viðtali Vísis við Þorvald sem hefur verið sofinn og vakinn yfir kvikusöfnuninni í Svartsengi undanfarnar vikur og mánuði. Hann segir að kvikugeymslan sé búin að safna meiri kviku nú en til að mynda fyrir síðasta gos.
Öflugt gos í upphafi
„Eitthvað hafa þolmörkin breyst, kannski er það bara eitthvað smotterí og gosið þá væntanlegt á næstu klukkutímum eða dögum ef það fylgir þessu fyrra ferli. Sennilega eitthvað heldur stærra, þar sem það er meira kvikumagn til staðar í geymsluhólfinu. Þar af leiðandi endar hraunir á því að vera stærra en fyrri hraun,“ segir Þorvaldur í samtali við Vísi.
„Miðað við fyrri reynslu myndi ég halda að gosið kæmi upp á svipuðum slóðum, eða í sprungubútnum sem er rétt suðaustan við Stóra Skógfell. Síðan opnast sprunga bara eins og blævængur út frá því til norðurs og suðurs. Í upphafi verðum við með öflugt gos, tiltölulega háa kvikustróka í kannski klukkutíma tvo. Svo fer að draga úr þessu og þá spurning hvar virknin sest til á sprungunni.“
Þess ber að geta að á fimmta hundrað smærri skjálftar hafa mælst síðastliðna viku samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.