Auglýsing

Stærstu lífeyrissjóðir landsins keyptu í Bláa lóninu eftir að jarðhræringar hófust: „Þeir eyddu fjögur þúsund milljónum í miðju eldgosi“

Fjórtán af stærstu lífeyrissjóðum landsins eyddu tæplega fjögur þúsund milljónum af almannafé í að kaupa 6,2 prósenta hlut í Bláa lóninu þrátt fyrir að gríðarleg óvissa ríkti um framtíð Svartsengis í ljósi landriss á svæðinu og eldgoss í Fagradalsfjalli. Kaupin gengu í gegn á sama tíma og eldgosið í Fagradalsfjalli stóð yfir og í raun hófst kaupferlið þegar gosið stóð sem hæst eða í júní árið 2021.

Ekki var um að ræða neina brunaútsölu því lífeyrissjóðirnir borguðu yfirverð fyrir hlutabréfin. Það þýðir á mannamáli að þessir fjórtán lífeyrissjóðir greiddu meira en virði bréfanna var talið vera á þeim tíma.

Fjölmiðlar fengu hins vegar ekki veður af umræddum viðskiptum fyrr en í byrjun september sama ár en þá var fyrst greint frá fyrirhugaðri milljarðafjárfestingu Blávarma. Eldgosið í Fagradalsfjalli, sem hófst þann 19. mars sama ár, lauk hins vegar ekki fyrr en 18. september.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Nútímans höfðu forsvarsmenn Bláa lónsins fundað með fremstu vísindamönnum landsins vegna þeirrar óvissu sem ríkti á svæðinu í kjölfar skyndilegs landriss vestan við fjallið Þorbjörn sem er rétt hjá Bláa lóninu. Þessir fundir áttu sér stað í byrjun árs 2020 – rúmlega einu og hálfu ári áður en Blávarmi, félagið sem fjórtán lífeyrissjóðir eiga, keypti 6,2% hlut Sigurðar Arngrímssonar fjárfestis.

Þessi mynd er skjáskot úr upptöku ferðamanns sem þurfti að yfirgefa lónið í hvelli þegar það tók að gjósa.

Keyptu bréfin á yfirverði – Sigurður græddi milljarða

Sama ár og lífeyrissjóðirnir keyptu Sigurð Arngrímsson út skilaði Saffran Holding, félag Sigurðar sem fór með hlut hans í Bláa lóninu, hagnaði upp á tæplega 2,9 milljarða íslenskra króna.

Ekki var um að ræða neina brunaútsölu því lífeyrissjóðirnir borguðu yfirverð fyrir hlutabréfin. Það þýðir á mannamáli að þessir fjórtán lífeyrissjóðir greiddu meira en virði bréfanna var talið vera á þeim tíma. Í umræddu verðmati, sem lífeyrissjóðirnir sjálfir létu gera í gegnum félag sitt Blávarma, var hvergi tekið til greina það mikla óvissuástand sem þá svo sannarlega ríkti á Reykjanesskaganum.

„En hvað þýðir það? Jú – sá eini sem getur staðið í verðmætasköpun og skilað hagnaði á þessum fordæmalausu tímum er Grímur Karl og félagið hans BLUE LAGOON SKINCARE ehf.“

Í árslok 2022 var Blávarmi næststærsti eigandi Bláa lónsins en félagið fer með 36,2% eignarhlut í fyrirtækinu. Því skal þó haldið til haga að umræddur eignarhlutur nær aðeins yfir starfsemi baðlónsins í Svartsengi en ekki til að mynda allar þær vörur sem seldar eru undir merkjum Bláa lónsins úti um allan heim. Sá hluti rekstrarins er geymdur í öðru félagi. Það félag heitir BLUE LAGOON SKINCARE ehf. en eigandi þess er Grímur Karl Sæmundsen. Þennan Grím Karl þekkja flestir enda var hann lengi vel stærsti eigandi Bláa lónsins.

En hvað þýðir það? Jú – sá eini sem getur staðið í verðmætasköpun og skilað hagnaði á þessum fordæmalausu tímum er Grímur Karl og félagið hans BLUE LAGOON SKINCARE ehf. Á meðan tapar hin rekstrareiningin, sem heitir Bláa Lónið Svartsengi ehf. og heldur utan um rekstur lónsins, gríðarlegum fjármunum á hverjum degi.

 

Sigurður Arngrímsson græddi þúsundir milljóna íslenskra króna á því að selja lífeyrissjóðunum bréf í Bláa lóninu.

Keypti þinn sjóður í lóninu?

En hvaða lífeyrissjóðir eiga Blávarma – félagið sem jók hlut sinn í Bláa lóninu á einhverjum mestu óvissutímum í sögu landsins þegar það kemur að náttúruhamförum og jarðhræringum? Hér fyrir neðan má sjá skjáskot úr nýjasta ársreikningi félagsins en þar eru lífeyrissjóðirnir taldir upp ásamt stærð eignarhluts hvers lífeyrissjóðs fyrir sig.

Þetta er skjáskot úr nýjasta ársreikningi Blávarma og sýnir þá lífeyrissjóði sem eiga í félaginu.Einn af þessum lífeyrissjóðum, líkt og sjá má á eigendalista Blávarma, er Lífeyrissjóður Starfsmanna Ríkisins eða LSR. Í þeim lífeyrissjóði áttu 80.071 einstaklingar réttindi árið 2023. Á vefsíðu LSR kemur fram að sjóðurinn hafi „mikilvægu hlutverki og skyldum að gegna sem ábyrgur fjárfestir“ – fullyrðing sem stenst enga skoðun ef litið er á kaup Blávarma á umræddum hlutabréfum í Bláa lóninu. Sjóðurinn gengur í raun lengra og segist leggja áherslu á „vönduð vinnubrögð, fagmennsku og frumkvæði.“ Þá kemur fram í sjálfbærnistefnu LSR, sem var gefin út í ágúst í fyrra, að sjóðurinn hafi „hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi við mótun fjárfestingarstefnu og við ávöxtun eigna lífeyrissjóðsins.“

Gæti haft áhrif á lífeyrisréttindi

Þeir sem borga í LSR koma úr hinum ýmsu starfsstéttum og hafa því fjárfestingar sjóðsins áhrif á lífeyri til að mynda kennara og lögreglumanna á Íslandi.

Nútíminn hefur frá því í nóvember á síðasta ári verið að skoða kaup og sölu á hlutabréfum í Bláa lóninu frá þeim tíma sem landrisið hófst í byrjun árs 2020. Rætt var við fjölda einstaklinga – allt frá fremstu vísindamönnum Íslands yfir í sérfræðinga í áhættufjárfestingum. Umræddir einstaklingar vildu þó ekki koma fram undir nafni. Það sem þessir einstaklingar sögðu var hins vegar það sláandi að það þótti ljóst í upphafi að ekki væri hægt að stinga þessu máli ofan í skúffu.

Óvissuástand sem allir vissu af

Samkvæmt þeim upplýsingum voru haldnir fundir reglulega með öllum rekstraraðilum fyrirtækja á svæðinu – þar á meðal forsvarsmönnum Bláa lónsins. Fyrsti slíki fundurinn var haldin í byrjun árs 2020 og hafa þeir verið haldnir reglulega síðan þá eða í rúm fjögur og hálft ár. Þrátt fyrir þær upplýsingar sem lágu fyrir eða öllu heldur þrátt fyrir þær sviðsmyndir sem teiknaðar voru upp á þessum fundum mat Blávarmi, fyrir hönd lífeyrissjóðanna, það svo að umrædd fjárfesting væri góð fjárfesting.

„Ég skil ekki alveg hvernig þessi reynslubolti gat lagt blessun sína yfir þessi kaup. Ég bara átta mig ekki á því“

Sérfræðingar í áhættufjárfestingum segja hins vegar að umrædd ákvörðun hafi verið galin og rúmlega það eða eins og einn komst að orði: „Það að eyða tæpum fjögur þúsund milljónum af almannafé til að kaupa út einn mann úr hluthafahópi Bláa lónsins á sama tíma og eldgos stóð yfir í næsta nágrenni er mögulega ein heimskulegasta fjárfesting sem ég hef heyrt af á Íslandi.“

Viðvaningsháttur eða spilling?

Það er í raun bara tvennt sem kemur til greina ef reyna á að útskýra þennan viðskiptagjörning. Annað hvort er um að ræða forkastanleg vinnubrögð sem jaðra við viðvaningshátt eða að þarna hafi annarlegir hvatar stýrt ákvarðanatöku þeirra sem fara fyrir Blávarma. Stjórnarformaður félagsins er Soffía Gunnarsdóttir en hún er jafnframt háttsett hjá lífeyrissjóðnum Birtu. Þar starfar Soffía sem yfirmaður eignastýringasviðs en hún er hokin af reynslu þegar það kemur að viðskiptum sem þessum. Á vefsíðu lífeyrissjóðsins Birtu kemur fram að Soffía þessi sé með BA próf í hagfræði og BSc próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2000 og próf í verðbréfaviðskiptum frá EHÍ. Þau lauk MBA prófi í Háskólanum í Edinborg 2005 og MA í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands 2012. Soffía starfaði hjá Glitni, Íslandsbanka og VÍB á árunum 1999 til 2008, réði sig til starfa í eignastýringu Stafa lífeyrissjóðs 2012 og hefur sinnt eignastýringu Birtu lífeyrissjóðs frá því sjóðurinn varð til við sameiningu Stafa og Sameinaða lífeyrissjóðsins 2016.

Stjórnarformaðurinn krafinn svara

„Ég skil ekki alveg hvernig þessi reynslubolti gat lagt blessun sína yfir þessi kaup. Ég bara átta mig ekki á því,“ sagði sérfræðingur í áhættustýringu sem ekki vildi koma fram undir nafni.

Frá vinstri: Hanna Þórunn Skúladóttir, forstöðumaður skrifstofu- og rekstrarsviðs // Sigþrúður Jónasdóttir, forstöðumaður lífeyrissviðs og Soffía Gunnarsdóttir, forstöðunmaður eignastýringasviðs hjá Birtu.

En hvernig kom þetta til? Hverjum fannst þetta góð hugmynd og hvað lá til grundvallar þeirri ákvörðun að eyða fjögur þúsund milljónum af almannafé á þessum tímapunkti í Íslandssögunni? Sú eina sem getur svarað því er Soffía og af því tilefni hefur Nútíminn sent á hana eftirtaldar spurningar. Svörin mun Nútíminn birta um leið og þau berast.

1. Fékk Blávarmi einhvern sérfræðing/sérfræðinga til þess að meta mögulega áhættu félagsins vegna kaupa á þessum stóra eignarhlut í Bláa lóninu í ljósi landris og eldgoss á svæðinu?

2. Hvernig kom það til að Blávarmi keypti umræddan hlut, 6,2 prósent – viðskipti sem hófust í júní 2021 og lauk í september sama ár?

3. Hefur verðmæti hlutabréfa Blávarma í Bláa lóninu rýrnað í ljósi þeirra eldsumbrota sem ekki sér fyrir endann á?

4. Hver hjá Blávarma ber ábyrgð á umræddum kaupum á 6,2 prósenta hlut í Bláa lóninu árið 2021?

5. Átti einhver á vegum Blávarma fund/fundi með vísindamönnum árið 2020 vegna landriss á svæðinu og þeirrar óvissu sem þá ríkti með framhaldið?

6. Hver mat verðmæti bréfanna á þeim tíma sem kaupin voru gerð?

Tapa mörg þúsund milljónum á hverju ári

Þegar stórt er spurt þá er oft fátt um svör. Þið þekkið orðatiltækið. Það verður þó ekki hægt að fela sig á bakvið það því um er að ræða framtíð mörg þúsund Íslendinga sem á hverju ári borga tilneyddir ríflegan hluta launa sinna til þessara lífeyrissjóða.

Þetta liti öðruvísi við ef fólki væri í sjálfvald sett hvort það borgi í lífeyrissjóð eða ekki. Íslendingar hafa hins vegar ekkert val. Í ljósi þess er það algjört lágmark að þeir sem fara með fé almennings útskýri það fyrir sjóðfélögum sínum hvað lá að baki þessari fjárfestingu. Lífeyrissjóðirnir hafa hingað til, og þá sérstaklega á undanförnum árum, ekki riðið feitum hesti frá gríðarlega stórum fjárfestingum þar sem mörg þúsund milljónir brunnu uppi.

Ábyrgðalausir með milljónir á mánuði

Nýjustu dæmin um gríðarstór töp lífeyrissjóðanna eru til dæmis fjárfestingar í fyrirtækjum á borð við United Silicon í Helguvík og fjárfestingar í gjaldmiðlasamningum. Til þess að lesendur Nútímans átti sig á umfangi taps lífeyrissjóðanna að þá greindi Gylfi Magnússon, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, að íslensku lífeyrissjóðirnir hafi tapað 815 milljörðum árið 2022…á einu ári.

Á meðan sitja stjórnendur þessara lífeyrissjóða sem fastast. Enginn tekur ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut í rekstri sjóðanna og eftir sitja tilvonandi og núverandi lífeyrisþegar eftir með sárt ennið. Framkvæmdastjórar sjóðanna eru með launahæsta fólki landsins sem væri svo sem í lagi ef þeir myndu einhverntímann axla ábyrgð.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing