Auglýsing

Rafbyssu beitt á Íslandi í fyrsta sinn: Starfsfólk Landspítalans titrar út af notkuninni

Í ágúst sendi Ríkislögreglustjóri tilkynningu á alla heilbrigðisstarfsmenn í landinu og öll sjúkrahús en um er að ræða „upplýsingabækling“ sem snýr að rafbyssunotkun lögreglunnar. Rafbyssurnar munu brátt verða tiltækar í öllum lögreglubifreiðum landsins en notkun þeirra er umdeild – þá skiptir engu hvort um er að ræða hér á landi eða í þeim löndum þar sem þær eru nú þegar í notkun.

Nú þegar búið er að tilkynna fjölmiðlum og almenningi að búið sé að nota rafbyssu í fyrsta skiptið hér á landi er alveg þess virði að rifja upp frétt Nútímans frá því í ágúst og snýr að viðbrögðum starfsfólks Landspítalans.

„Þetta er algjört rugl. Þú mátt alls ekki tengja nafnið mitt við þetta en við hérna á bráðamóttökunni erum bara orðlaus yfir þessum upplýsingabækling.“

https://www.nutiminn.is/frettir/beittu-rafbyssu-vid-miklubraut-i-gaer/

Gangtruflanir í hjarta

Samkvæmt heimildum Nútímans er starfsfólk Landspítalans engan veginn sátt við umræddan upplýsingabækling og segja að með honum sé lögreglan að fría sig af ábyrgð af mögulegum dauðsföllum vegna notkunar þeirra. Því er haldið fram í upplýsingabækling Ríkislögreglustjóra að „rafvarnarvopnin“, eins og þau eru kölluð í umræddum bækling, geti ekki ein og sér leitt til dauða heldur geta gangtruflanir í hjarta og áhrif vímuefna haft þar mikil áhrif.

Ríkislögreglustjóri segir að rafbyssan skjóti frá sér 1000volta straum.

Heilbrigðisstarfsmenn ósammála „æsingsóráðsheilkenninu“

„Dæmi eru um andlát eftir beitingu slíkra vopna. Ástæða er til að ætla að flest slík dæmi megi tengja við gangtruflanir í hjarta, og þá gjarnan þegar einstaklingurinn hefur verið undir áhrifum vímuefna og streitu vegna þeirrar upplifunar að standa andspænis lögreglunni. Rannsóknir benda ekki til þess að rafstraumur frá vopninu einn og sér nægi til að leiða til dauða,“ stendur í tilkynningunni frá Ríkislögreglustjóra.

Þessu er fjöldi heilbrigðisstarfsmanna ósammála og segja þeir að ekkert samráð hafi verið haft við sérfræðinga Landspítalans, eða annarra sjúkrahúsa ef út í það er farið, vegna notkunar rafvarnarvopna. Þá hafi það reitt heilbrigðisstarfsfólk til reiði að í upplýsingabæklingnum hafi verið vísað til heilkennis sem lögreglan í Bandaríkjunum hafi svo gott sem fundið upp og notað til þess að útskýra óútskýrð dauðsföll sem hafi átt sér stað af völdum lögreglumanna. Um er að ræða „Æsingsóráðsheilkennið“ eða „Excited Delirium Syndrome“ en heilkennið er AÐEINS notað af lögregluyfirvöldum þegar dauðsföll eiga sér stað vegna valdbeitingar hennar.

Kenna gangtruflunum og vímuefnaneyslu um andlát af völdum vopnsins. Þessu eru heilbrigðisstarfsmenn sem Nútíminn ræddi við mjög ósammála.

Eitt umdeildasta heilkenni í heiminum

„Þetta er algjört rugl. Þú mátt alls ekki tengja nafnið mitt við þetta en við hérna á bráðamóttökunni erum bara orðlaus yfir þessum upplýsingabækling. Þeir eru að fría sig ábyrgð á dauðsfölllum. Þeir meira að segja dirfast að nota heilkenni sem er ekki viðurkennt af heilbrigðisstarfsfólki – hvað þá vísindasamfélaginu,“ sagði starfsmaður Landspítalans í samtali við Nútímann í gærkvöldi.

Því ber að halda til haga að „æsingsóráðsheilkennið“ hefur hvergi verið notað á Norðurlöndunum sem útskýring á skyndilegu dauðsfalli þeirra sem verða fyrir valdbeitingu lögreglunnar. Ísland er þar leiðandi og í raun áttunda landið í heiminum sem hefur ákveðið að taka þetta „heilkenni“ og nota sem vísindalega útskýringu á umræddum dauðsföllum.

Það þykir í raun ótrúlegt því útskýringin er ein sú umdeildasta í heiminum og virðist hafa verið fundin upp gagngert til þess að útskýra óútskýrð dauðsföll einstaklinga í höndum lögregluyfirvalda. Hin löndin sjö eru:

1. Bandaríkin – Það er langalgengast að EDS sé notað í Bandaríkjunum, sérstaklega í samhengi við dauðsföll í haldi lögreglu.

2. Kanada – EDS hefur einnig verið notað í Kanada, einkum í tengslum við lögregluaðgerðir og notkun rafskotvopna (TASER).

3. Bretland – Í Bretlandi hefur EDS verið nefnt í nokkrum tilfellum tengdum lögregluaðgerðum, en það er enn frekar umdeilt þar.

4. Ástralía – Í Ástralíu hefur heilkennið verið notað sem útskýring í sumum tilfellum, þó það sé ekki almennt viðurkennt af læknum þar.

5. Nýja Sjáland – Líkt og í Ástralíu hefur EDS komið upp í nokkrum tilfellum í Nýja Sjálandi, þó að heilbrigðisyfirvöld séu varkárari í notkun þess.

6. Frakkland – Í Frakklandi hefur EDS verið nefnt í tengslum við lögregluaðgerðir, þó það sé ekki almennt viðurkennt sem læknisfræðileg greining.

7. Spánn – EDS hefur verið nefnt í nokkrum tilfellum í Spáni, en það hefur ekki verið almennt viðurkennt.

Svona útskýrir Ríkislögreglustjóri eitt umdeildasta heilkenni í heiminum.

En hvernig ætli Ríkislögreglustjóri útskýri þetta umdeilda og óvísindalega heilkenni?

„Í slíku ástandi verður viðkomandi ruglaður, æstur, oft ofbeldisfullur og er með hækkaðan líkamshita (yfir 39°C). Einstaklingar sem sýna slík einkenni eftir að hafa orðið fyrir beitingu rafvarnarvopns ber því að rannsaka vandlega. Ekki er ástæða til að ætla að óráð eða aukinn líkamshiti orsakist af beitingu rafvarnarvopnsins, heldur er ástæðan frekar t.d. áhrif vímuefna. Þau fáu dæmi um brátt andlát sem þekkt eru eftir beitingu rafvarnarvopna tengjast oft æsingsóráðsheilkenni. Þrátt fyrir það sýna rannsóknir fram á að forðast skuli meðal annars langvarandi átök og truflun á öndun til dæmis vegna líkamlegrar valdbeitingar og notkunar á varnarúða. Samkvæmt þessu er notkun rafvarnarvopna heppilegasti kosturinn þegar eiga þarf við einstakling sem er í sturlunarástandi.“

Rúmlega 460 íslenskir lögreglumenn hafa hlotið þjálfun og öðlast réttindi til að bera rafvarnarvopn. Það má því búast við því að nánast hver einasti lögreglumaður á Íslandi komi til með að bera rafbyssu „og er mikið eftirlit með notkun þeirra“ segir í tilkynningunni. Hvernig eftirlit það verður á eftir að koma í ljós. Fjölmörg dæmi eru um það að ekki hafi verið kveikt á búkmyndavélum lögreglumanna og því á það eftir að koma í ljós hvort það sé eftirlitið sem Ríkislögreglustjóri talar um eða hvort það verður annað og meira en það.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing