Allir starfsmenn álversins í Straumsvík verða á næstu vikum skikkaðir til að mæta í hinseginfræðslu á vegum Samtakanna 78 en samkvæmt heimildum Nútímans og yfirlýsingum stjórnenda ISAL, sem rekur álverið, er það gert svo fyrirtækið fái „hinsegin vottun“ frá samtökunum. Hinseginfræðslan er sett upp sem námskeið og fara þau fram utan vinnutíma starfsmanna en þrátt fyrir það er mæting ekki valfrjáls.
Að bjóða upp á námskeið sem tengist störfum viðkomandi starfsmanna er eitt en það er eitthvað allt annað að skikka starfsmenn á námskeið þar sem markmið þess gæti til dæmis verið að koma í veg fyrir að starfsmenn rangkynji vinnufélaga sína.
Það þýðir einfaldlega á mannamáli að þeir starfsmenn sem eru ekki reiðubúnir að fórna frítíma sínum til þess að mæta á umrædd námskeið gætu átt á hættu að lenda í vandræðum í vinnunni í álverinu. Bæði eigendur og stjórnendur álversins vilja ólmir fá „hinsegin vottun“ og því var brugðið á það ráð, að tillögu Samtakanna 78, að skikka alla starfsmenn til þess að sitja fræðslunámskeið um allt sem hinsegin er.
Vilja skapa meiri tekjur fyrir samtökin
Þetta er þó ekki ókeypis. Langt í frá og í raun viðurkenna Samtökin 78 að umrætt ferli er liður í því að auka sjálfsaflafé samtakanna til að þróa fræðslustarf og ráðgjafaþjónustu á vegum þeirra. Aðeins eitt fyrirtæki hefur fengið slíka vottun en það er Ölgerðin. Það ferli tók átta mánuði og kostaði fyrirtækið nokkrar milljónir króna. Það þykir því kannski ekki skrítið að samtökin sæki nú hart að íslenskum fyrirtækjum að taka þátt í verkefninu en samkvæmt árskýrslu hafa fleiri vinnustaðir bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem sækjast eftir vottuninnni.
„Fleiri vinnustaðir hafa bæst í hópinn og eru komin í það ferli að fá hinsegin vottun. Þau eru Rio Tinto Alcan, Dagar, Forsætisráðuneytið, Þjóðskrá Íslands, Íslandshótel, BHM og Lota. Eru þau mislangt komin í ferlinu en gert er ráð fyrir að stór hluti þeirra hljóti hinsegin vottun á starfsárinu sem er í vændum. Aukinheldur eru Samtökin í viðræðum við BYKO, Krónuna, Elko, N1, Íslandsbanka, Eimsskip, Landsbankann og fleiri vinnustaði,“ segir í ársskýrslu Samtakanna 78 sem er aðgengileg á vefsíðu þeirra.
Það þykir áhugavert að ISAL hafi skautað framhjá þeirri staðreynd að fyrirtækið sé að skikka starfsmennina á umrætt námskeið þar sem það sækist eftir umræddri vottun þegar fyrirtækið svaraði fyrirspurn mbl.is sem var birt á fréttamiðlinum í gær. Þar staðfesti Bjarni Már Gylfason, leiðtogi samfélagsmála og samskipta hjá ISAL, að mætingin væri ekki valfrjáls en minntist hvergi á „hinsegin vottunina“ sem virðist eftirsóttur stimpill að mati stjórnenda. Þess í stað tiltók Bjarni Már önnur námskeið sem fyrirtækið heldur fyrir starfsmenn sína en þau tengjast öll öryggi starfsmanna eða öðrum vinnutengdum málum. En þar er munur. Að bjóða upp á námskeið sem tengist störfum viðkomandi starfsmanna er eitt en það er eitthvað allt annað að skikka starfsmenn á námskeið þar sem markmið þess gæti til dæmis verið að koma í veg fyrir að starfsmenn rangkynji vinnufélaga sína.
Keypt vottun fyrir betri ímynd?
Þeir sem Nútíminn hefur rætt við vilja meina að þetta sé í raun ekkert annað en „regnbogaþvottur“ hjá fyrirtækinu til þess að bæta ímynd sína út á við. Merking orðsins „regnbogaþvottur“ eða „bleikþvottur“ þýðir að fyrirtæki og stofnanir taki þátt í verkefnum sem þessum, sem kosta margar milljónir, til að bæta ímynd sína án þess að styðja raunverulega réttindabaráttu hinsegin fólks. Vottunin, eins og áður hefur komið fram, er ekki ókeypis. ISAL greiðir til að mynda öllu starfsfólki sínu laun á meðan það situr námskeiðið fyrir utan að greiða fyrir námskeiðið sjálft og alla aðra vinnu sem snýr að „vottuninni.“
Þá hlýtur það að orka tvímælis þegar starfsmenn eru skikkaðir á slík námskeið. Slíkt virðist aðeins formsatriði sem fyrirtæki ganga í gegnum til að sýna fram á „ábyrgð“ án þess að innleiða raunverulegar breytingar.
Þannig að ef það tók Ölgerðina 8 mánuði að ganga í gegnum þetta ferli þá er rétt svo hægt að ímynda sér hver kostnaður ISAL er við ferlið með alla sína tæplega 400 starfsmenn. Þegar það er allt tekið inn í myndina er auðveldlega hægt að tengja saman fjárhagsstöðu þeirra fyrirtækja sem Samtökin eiga í viðræðum við eða hafa fengið til þess að taka þátt í verkefninu. Þau fyrirtæki sem eru nafngreind í ársskýrslu samtakanna eiga það einmitt sameiginlegt – þau eiga nær öll digra sjóði til þess að „kaupa“ sér umrædda vottun. Byko, Krónan, Elko, N1, Íslandsbanki, Eimsskip og Landsbankinn eru öll fyrirtæki sem gætu auðveldlega reitt fram tugi milljóna fyrir „kaup“ á slíkri vottun án þess að svo mikið sem svitna. Það verður að teljast ansi dýr en yfirborðskenndur stuðningur svo ekki sé minnst á hið tvöfalda siðferði sem helst í hendur við sum þessara fyrirtækja.
Halda lista yfir fyrirtæki sem gefa ekki til „hinsegin samfélagsins“
Vottunin orðin að vörumerki erlendis
Eimsskip starfar til að mynda í fjölda landa þar sem réttindum hinsegin fólks eru fótum troðið. Til dæmis starfar Eimsskip í Rússlandi sem hefur staðið fyrir einni hörðustu löggjöf gegn hinsegin fólki í Evrópu – svo ekki sé minnst á Tyrkland þar sem réttindi þeirra eru einnig mjög takmörkuð. Bæði þessi lönd hafa verið gagnrýnd alþjóðlega fyrir að brjóta á mannréttindum hinsegin fólks, þar á meðal með lögum sem banna „áróður“ fyrir samkynhneigð og hindra réttindi þeirra til að tjá sig og lifa frjálsu lífi. Ef Eimsskip ætlaði sér í fullri alvöru að fá „hinsegin vottun“ þá ætti fyrirtækið að geta staðið undir þeirri vottun með raunverulegum aðgerðum og skuldbindingum til að styðja hinsegin samfélagið. Það myndi þýða að endurskoða starfsemi þeirra í löndum þar sem réttindi hinsegin fólks eru fótum troðin og sjá til þess að fyrirtækið taki afstöðu gegn mismunun og mannréttindabrotum. Annars gæti það virkað eins og yfirborðskennd markaðsherferð sem myndi draga úr trúverðugleika þeirra og vekja neikvæða athygli. Ferlið er sagt krefjast heiðarleika og ábyrgðar en við fyrstu sýn virðist hvorugt vera til staðar.
Þessi „vottun“ Samtakanna 78 er ekkert einsdæmi en hin ýmsu réttindasamtök hinsegin fólks hafa verið gagnrýnd víða um heim. Þeir sem hafa hvað hæst um málið vilja meina að vottunin hafi orðið að vörumerki sem fyrirtæki kaupa sér til að bæta ímynd sína, án þess að þurfa að sýna raunverulegan stuðning eða gera breytingar innan fyrirtækisins. Þá hlýtur það að orka tvímælis þegar starfsmenn eru skikkaðir á slík námskeið. Slíkt virðist aðeins formsatriði sem fyrirtæki ganga í gegnum til að sýna fram á „ábyrgð“ án þess að innleiða raunverulegar breytingar. Ekki eru allir starfsmenn ISAL sáttir við að vera skikkaðir á þessi námskeið þó svo að þeir fái greitt fyrir það. Tilgangur námskeiðanna gæti því allt eins snúist í andhverfu sína þegar á þeim sitja starfsmenn sem hafa engan áhuga á því að vera þar.