Tæknirisinn Apple hefur flutt sex bíla til Íslands sem ætlaðir eru til að taka myndir af götum landsins fyrir Götusýn (e. Look Around) eiginleikann í Apple Maps. Þessir bílar, sem eru útbúnir með háþróuðum myndavélakerfum, munu aka um landið og safna nákvæmum myndum af götum og umhverfi. Með þessari aðgerð er markmiðið að bæta upplifun notenda Apple Maps og tryggja að notendur geti skoðað Ísland á sem raunverulegastan hátt í gegnum forritið.
Bifreiðarnar komu til landsins með Norrænu fyrir fáeinum dögum en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er áætlað að verkefninu ljúki þann 7. september.
Ástæðan fyrir því að Apple sendir þessa bíla til Íslands er einföld: Apple vill tryggja að kortaþjónusta þeirra sé eins nákvæm og mögulegt er, og að notendur geti fengið eins góða yfirsýn yfir landið og hægt er. Ísland hefur hingað til verið ein af þeim þjóðum þar sem þessi tækni hefur verið takmörkuð, en með komu Götusýnar mun notendum Apple Maps bjóðast sá möguleiki á að skoða umhverfið á Íslandi, götur þess og meira að segja göngugötur í Reykjavík.
Já.is hefur vinninginn í dag
Því ber að halda til haga að eins og staðan er í dag þá býður Já.is upp á nákvæmasta „kortið“ því það hefur verið uppfært reglulega á meðan Google Maps hefur í raun ekki uppfært almennilega sína „götusýn“ (e. Street View) síðan hver einasta gata landsins var mynduð hér á landi árið 2013.
Mannlíf greindi frá því að eitt af þeim bæjarfélögum sem Apple hyggst heimsækja með þessum háþróuðu myndavélakerfum er Grindavíkurbær. Í fréttinni er réttilega bent á það að bærinn er lokaður öllum öðrum en viðbragðsaðilum. íbúum bæjarins, starfsmönnum Grindavíkurbæjar, fyrirtækja, verktaka og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa. Þá segir að fjölmiðlum sé einnig leyft að fara inn í bæinn „…en óvíst er hvort hægt sé að skilgreina Apple sem fjölmiðil.“
Ekki beðið um leyfi fyrir Grindavík
Miðillinn hafði samband við lögregluna á Suðurnesjum og spurðist fyrir um áætlanir Apple í Grindavík og kannaði hvort tæknirisinn hefði haft samband við embættið til þess að afla leyfa fyrir kortlagningunni.
„Þetta hefur ekki borist til lögreglunnar á Suðurnesjum og engin hér meðvitaður um þetta. Ef slík beiðni berst verður hún skoðuð af aðgerðastjórn,“ sagði Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.