Starfsmenn hjá ítalska bílaframleiðandanum Fiat ætla sér að fara í verkfall vegna hárrar upphæðar sem fótboltaliðið Juventus borgaði fyrir fótboltamanninn Cristiano Ronaldo. Fiat borgar hluta af upphæðinni en Fiat var stofnað af Agnelli fjölskyldunni sem á stærsta hlutan í fótboltaliðinu.
Cristiano Ronaldo er einn besti fótboltamaður í heimi en það vakti mikla athygli á dögunum þegar hann ákvað að ganga til liðs við Juventus á Ítalíu og yfirgefa stórlið Real Madrid á Spáni. Ronaldo er orðinn 33 ára gamall en Juventus borgaði rúmlega 100 milljónir punda fyrir leikmanninn.
Þá er sagt að Ronaldo fái 26 milljónir punda í árslaun hjá Juventus. Starfsmenn Fiat á Melfi á Ítalíu ætla í verkfall en í yfirlýsingu frá stéttarfélagi þeirra segir að það sé óásættanlegt að svona miklum pening sé eytt í einn fótboltamann á meðan starfsmenn og fjölskyldur þeirra þurfi að harka fyrir pening.
„Er þetta sanngjarnt? Er eðlilegt að einn maður þéni milljónir á meðan mörg þúsund fjölskyldur eiga ekki peninga til að komast í gegnum helming mánaðarins? Við erum öll ráðin af sama vinnuveitandanum og eigum ekki að sætta okkur við svona mismunun. Starfsmenn Fiat hafa aflað hárra fjárhæða fyrir fyrirtækið í að minnsta kosti þrjár kynslóðir en hafa aðeins fengið líf í örbirgð í staðinn,” segir í yfirlýsingu frá stéttarfélaginu Unione Sindacale di Base.
Verkfallið mun hefjast á sunnudag og vara fram til þriðjudags.