Auglýsing

Starfsmenn Fréttablaðsins og Vísis gagnrýna yfirmenn sína harðlega í yfirlýsingu

Uppfært kl. 13.58: Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hefur sagt upp störfum. Kjarninn greinir frá þessu.

Starfsmenn Fréttablaðsins og Vísis hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem uppsögn yfirmanns ljósmyndadeildar 365, Pjeturs Sigurðssonar, er mótmælt harðlega. Yfirlýsinguna má sjá hér fyrir neðan.

Sjá einnig: Rekinn frá 365 eftir að hafa kvartað undan einelti, aðalritstjóri reifst við blaðamenn á fundi

Pjetri Sigurðssyni, yfirmanni á ljósmyndadeild 365 var sagt upp störfum á föstudag. Hann hafði verið í leyfi frá störfum um margra mánaða skeið eftir að hafa kvartað undan einelti Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra fyrirtækisins.

Fréttatíminn greindi fyrst frá eineltismálinu í maí. Þá kom fram að mannauðsstjóri 365 hafi sett í gang formlega athugun eftir að Pjetur kvartaði undan meintu einelti Kristínar. Fréttatíminn greindi síðar frá því að mannauðsstjórinn hafi látið af störfum hjá fyrirtækinu.

Samkvæmt heimildum Nútímans boðaði Kristín til fundar á ritstjórn 365 á föstudag til útskýra sína hlið málsins. Þar sagði hún frá samskiptaörðuleikum sínum og Pjeturs og kvartaði undan samstarfinu við hann. Þá herma heimildir Nútímans að hún hafi sakað Pjetur og mannauðsstjórann, sem nú er hættur, um að vera í herferð gegn sér.

Starfsmenn Fréttablaðsins og Vísis harma það sem þeir kalla óásættanleg vinnubrögð aðalritstjóra og yfirstjórnar fyrirtækisins í aðdraganda uppsagnar Pjeturs og við kynningu á henni til samstarfsmanna hans.

Við beinum því til stjórnar og stjórnenda 365 að tryggja að slík framganga, sem grefur undan faglegum grunni og trúverðugleika fréttastofunnar, geti ekki endurtekið sig.

Þá telja þeir að meðferð málsins hafi skaðað alvarlega það traust sem að þeirra mati verður að ríkja innan ritstjórnarinnar.

Hér má sjá yfirlýsinguna í heild sinni

Til stjórnarformanns 365, forstjóra og aðalritstjóra.

Við, starfsmenn Fréttablaðsins og Vísis, mótmælum harðlega óverðskuldaðri uppsögn yfirmanns ljósmyndadeildar 365, Pjeturs Sigurðssonar. Jafnframt eru hörmuð óásættanleg vinnubrögð aðalritstjóra og yfirstjórnar fyrirtækisins í aðdraganda uppsagnar Pjeturs og við kynningu á henni til samstarfsmanna hans.

Við beinum því til stjórnar og stjórnenda 365 að tryggja að slík framganga, sem grefur undan faglegum grunni og trúverðugleika fréttastofunnar, geti ekki endurtekið sig.

Pjetur Sigurðsson hefur þriggja áratuga reynslu sem blaðaljósmyndari. Þar af þrettán ára starfsferil hjá Fréttablaðinu og Vísi. Hann á að baki farsælan feril og hefur reynst góður samstarfsmaður.

Við teljum að öll meðferð málsins hafi skaðað alvarlega það traust sem verður að ríkja innan ritstjórnarinnar.

Samþykkt einróma á fundi starfsmanna Fréttablaðsins og Vísis 8. ágúst 2016.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing